Ástandið – saga kvenna frá hernámsárunum eftir Sigrúnu Valbergsdóttur og Brynhildi Olgeirsdóttur.
Leikstjóri er Sigrún Valbergsdóttir.
Frumsýnt 8. febrúar 2019
Fósturlandsins Freyja
fær sinn ástandsdóm
svo ég mætti segja
samt með öðrum róm:
Kæmi mergð af konum,
kvennasetulið,
sumt af Íslandssonum
sykki í ástandið.
Þennan bráðsnjalla kveðskap setti vörubílstjóri í Reykjavík saman þegar ástandið stóð sem hæst. Jónas frá Grjótheimum var hann nefndur og hitti áreiðanlega naglann á höfuðið. Þegar herinn kom fjölgaði karlmönnum á höfuðborgarsvæðinu um helming. Langflestir voru ungir og sprækir strákar og herinn þurfti að hafa mikil samskipti við íbúa landsins. Margháttaður fjölskylduharmleikur og tilfinningastríð átti sér stað á meðan hagvöxtur óx þar sem peningar streymdu nú skyndilega inn í landið og allir gátu fengið vinnu. Konur áttu kost á launaðri vinnu, oftsinnis þó í óþökk eiginmanna. Sumar fengu á sig lauslætisorð fyrir það eitt að taka að sér þvotta fyrir hermennina.
Ástandið reyndist óyfirstíganlegt vandamál og allar aðgerðir yfirvalda til að sporna við því komu fyrir lítið. Heimstyrjöldin sjálf virtist oft bara lítið vandamál við hliðina á því. Margar stúlkur eignuðust kærasta sem skömmu seinna voru sendir úr landi, beint í eldlínuna og til þeirra heyrðist ekki meir. Mörg börn komu í heiminn á þessum árum, sem ýmist voru alin upp hjá einstæðum mæðrum, eða ættleidd af íslenskum eiginmanni móðurinnar. Ástandskrógar nefndust þau í fordómafullu tungutaki meðborgaranna. Aðrar stúkur giftust sínum kærustum og fluttu með þeim út þegar stríðinu lauk.
Hermönnum fækkaði þegar í stríðslok og ástandsumræðan hjaðnaði. Stúlkurnar sem fóru úr landi voru horfnar af sjónarsviðinu, dálítið eins og óhreinu börnin hennar Evu. Það var lítið um þær talað. En hinar sem eftir voru með sín börn sátu uppi með einhvers konar skömm og töluðu ekki um þessa tíma.
Það má segja að Brynhildur Olgeirsdóttir hafi rofið einhverja þögn þegar hún á níunda áratugnum tók að skrifa niður stemminguna sem hún upplifði þegar hún flutti til Reykjavíkur 1942, vestan úr Bolungarvík. Allt var öðru vísi og spennandi. Tónlistin, dansinn, klæðaburðurinn og hermennirnir sem hún mætti á götunum. Hún var í fimleikum, söng mikið og fannst gaman að dansa, en hún þorði ekki í bransann, eins og hún sagði sjálf, og dauðsá eftir því alla tíð! Hún kynntist mörgum stúlkum og heyrði margar sögur. Skemmtilegar, átakanlegar og ótrúlegar. Hún skrifaði þær niður af miklu næmi og innsæi og út frá sjónarhóli kvennanna og flutti þær í útvarpið og skyndilega sá maður þessa tíma í nýju ljósi.
Út frá sögunum hennar og lestur á ýmsum samtímaheimildum og aldarfarslýsingu varð síðan leikritið til. Það var sérlega áhugavert þegar æfingar voru að hefjast á leikritinu að hafa sér við hlið 10 kvenna hóp sem allar höfðu upplifað hernámsárin sem ungar stúlkur. Þær komu með margar samtímalýsingar sem rötuðu inn í leikritið og áttu auðvelt með að samsama sig þeim tíma sem leikritið fjallar um. Þetta eru ekki sögur einhverra ákveðinna fjögurra kvenna, heldur eru þetta samsettar persónur úr sögum sem allar eru sannar.
Kynningarstikla
Persónur og leikendur
Fólkið bak við tjöldin
Brynhildur Olgeirsdóttir - Höfundur
Brynhildur Olgeirsdóttir (1921-2017), fæddist á Bolungarvík, en flutti til Reykjavíkur 1941, eftir tveggja ára nám við Héraðsskólann á Laugarvatni. Þetta var á styrjaldarárunum og nokkru áður höfðu Bandaríkin tekið við hernáminu af Bretum. Brynhildur stundaði ýmis störf utan heimilis meðfram því að sjá um heimili og koma upp sex börnum. Hún rak lengi verslun við Laugaveginn í Reykjavík.
Þegar eftirlaunaaldurinn nálgaðist fór hún að huga að skemmtilegri tómstundaiðju og átti frumkvæðið að því að stofna Leikfélagið Snúð og snældu í samvinnu við Sigríði Eyþórsdóttur. Hún var formaður þess fyrstu árin, en einnig lék hún burðarhlutverk í flestum verkum sem sett voru á fjalirnar næstu 20 árin jafnframt því að leika og syngja í skemmtidagskrám og á rithöfundakynningum sem leikfélagið setti saman og ferðaðist með og sýndi eldri borgurum jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem utan þess.
Oft bregður Brynhildi fyrir í íslenskum kvikmyndum sem teknar voru á þessu tímabili. Brynhildur samdi marga texta fyrir heimasmíðaðar dagskrár leikfélagsins Snúðs og snældu. Frásagnir hennar af hernámsárunum sem hún flutti í Ríkisútvarpinu urðu kveikjan að leikritinu Ástandið.
Brynhildur Olgeirsdóttir
Sigrún Valbergsdóttir - Leikstjóri og höfundur
Sigrún Valbergsdóttir útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1970. Hún bjó í Þýskalandi í tæpan áratug og las leikhúsfræði við Kölnarháskóla. Hún var framkvæmdastjóri Bandalags ísl. leikfélaga 1983-1989 og leikhússtjóri Alþýðuleikhússins 1980-1983 og aftur 1988-1993. Hún var framkvæmdastjóri erlendra verkefna hjá Reykjavík Menningarborg árið 2000 og kynningarstjóri Borgarleikhússins 2001-2005.
Sigrún hefur leikstýrt yfir 50 leiksýningum hjá atvinnu- og áhugaleikhúsum á Íslandi og í Færeyjum, en einnig í Útvarpsleikhúsinu. Hún hefur kennt við Leiklistarskóla Íslands, Bandalags íslenskra leikfélaga, Meginfélags áhugaleikhúsa Færeyja og Amatörteaterns Rikförbund, Svíþjóð. Hún hefur unnið við dagskrárgerð hjá útvarpi og sjónvarpi. Einnig hefur hún þýtt og skrifað leikrit fyrir útvarp og leiksvið.
Sigrún Valbergsdóttir
Fleiri sem koma að sýningunni á einn eða annan hátt
Leikstjóri | Sigrún Valbergsdóttir |
Aðstoðarleikstjóri / sýningastjóri | Ása Hildur Guðjónsdóttir |
Ljósahönnun | Vilhjálmur Hjálmarsson |
Ljósakeyrsla og umsjón leikmuna | Guðný Guðnadóttir |
Hljóðmynd, harmonikkuleikur | Einar Andrésson |
Hljóðkeyrsla | Frímann Sigurnýasson |
Búningar | Helga Jónsdóttir og hópurinn sjálfur |
Leikmyndasmíði | Þröstur Steinþórsson |
Plakat, leikskrá, ljósmyndir, auglýsingastiklur og heimasíða |
Páll Guðjónsson |
Þrif og málningarvinna | Marteinn Jónsson |
Málningarvinna | Hanna Margrét Kristleifsdóttir og Stefanía Björk Björnsdóttir |
Miðasölustjóri | Ása Hildur Guðjónsdóttir |
Kynningarstikla
Myndir frá æfingum
Kveðja frá Bandalagi íslenskra leikfélaga
Halaleikhópurinn er aðili að BÍL, samtökum áhugaleikfélaga á Íslandi.
BÍL vinnur að þróun og eflingu leiklistar með því að stuðla að uppbyggingu og að halda á lofti gildi þeirrar reynslu sem fæst með samstarfi og í samneyti við annað fólk. Í þeim anda óskum við Halaleikhópnum til hamingju með sýninguna og ykkur, kæru áhorfendur, góðrar skemmtunar.
Stjórn og starfsfólk BÍL.
Sérstakar þakkir
Halaleikhópurinn þakkar öllum, sem hafa lagt honum lið við að koma upp þessari sýningu.
Sérstakar þakkir Sjálfsbjörg lsh., Öryrkjabandalag Íslands, Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborg, Akkur, Kramhúsið, Evíta og Sjálfsbjargarheimilið.
Makar og aðstandendur frá sértakar þakkir fyrir þolinmæði á æfingatímabilinu.