1. grein.
Félagið heitir Halaleikhópurinn.
2. grein.
Tilgangur félagsins er að efla og iðka leiklist með aðgengi fyrir alla.
3. grein.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná m.a. með því að:
- æfa og sýna leikrit
- standa fyrir námskeiðum
- vera aðili að samtökum og samstarfi áhugafólks um leiklist, bæði innan lands og utan
- vera vettvangur fyrir hvers konar hópvinnu félagsmanna um leiklist.
Frumkvæði að verkefni, leikriti eða annarri hópvinnu getur komið frá stjórn eða einstökum félögum. Gera þarf þá fjárhagsáætlun, sem samþykkt er af meirihluta stjórnar eða félagsfundi, og henni fylgt í hvívetna eftir það af ábyrgðaraðilum verkefnisins.
Hópurinn skal hafa aðgang að munum félagsins í góðu samkomulagi við aðra sem starfa á sama tíma. Gæta skal þess að fara vel með munina.
Verði verkefni sýnt í nafni félagsins, ber félagið allan kostnað af uppsetningunni, enda renni hugsanlegur hagnaður í sjóði félagsins.
Ákvörðun um sýningu tekur viðkomandi hópur sjálfur eftir undirtektum félagsmanna.
4. grein.
Inntökubeiðni skal berast stjórninni munnlega eða skriflega og staðfestast á næsta aðalfundi.
Inngöngu getur hver sá fengið sem hlýtur samþykki meirihluta fundarmanna. Þó skal enginn gangast undir skuldbindingar er greinir í lögum félagsins fyrr en fjárráða.
Félagar greiða á yfirstandandi leikári árgjald sem skal endurskoðað ár hvert á aðalfundi. Skuldlausir félagsmenn hafa ókeypis aðgang að aðalsýningu ársins og njóta afsláttar á námskeið sem Halaleikhópurinn heldur.
Fullgildur félagsmaður telst sá sem greiðir félagsgjald eins og það er ákveðið á aðalfundi ár hvert. Að öðrum kosti hefur hann ekki kosningarétt á aðalfundi.
Skuldi félagsmaður þrjú árgjöld á aðalfundi skoðast hann ekki lengur félagi.
Félagsmaður getur sótt um niðurfellingu á ógreiddum félagsgjöldum vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Hefur stjórn heimild til að fella niður eða veita afslátt af félagsgjöldum og þarf einróma samþykki stjórnar til að af verði.
Heiðursfélagar þurfa ekki að greiða félagsgjöld. Heiðursfélagi fær tvo boðsmiða á frumsýningu eða aðra sýningu sem hentar honum betur.
Úrsögn berist skriflega til stjórnar.
5. grein.
Aðalfundur fer með æðsta vald í félaginu. Hann skal haldinn fyrir 20 apríl ár hvert.
Dagskrá aðalfundar:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Inntaka nýrra félaga.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Ársreikningar lagðir fram.
5. Afgreiðsla tillagna sem borist hafa fundinum, svo sem lagabreytinga.
6. Starfsemi næsta leikárs.
7. Kosning stjórnarmanna, varamanna í stjórn og tveggja skoðunarmanna reikninga.
8. Önnur mál.
Aðalfund skal boða með tölvupósti og á vef félagsins með minnst viku fyrirvara.. Aðalfundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað.
6. grein.
Á aðalfundi skal kjósa fimm menn í stjórn og aðra þrjá til vara. Allir skulu kosnir til tveggja ára í senn. Formann, ritara, meðstjórnanda og einn varamann annað árið, en hitt varaformann, gjaldkera og tvo varamenn.
7. grein.
Stjórnin fer með framkvæmdastjórn í félaginu á milli aðalfunda. Skal hún kveða sér til aðstoðar aðra félaga eftir ástæðum hverju sinni.
Stjórnin skal færa reikninga félagsins og leggja þá skoðaða fyrir aðalfund.
Reikningsárið er leikárið, frá 1. apríl til 31. mars. . Stjórn skal setja félaginu nýja fjárhagsáætlun fyrir lok reikningsárs, kynna hana á aðalfundi og gera grein fyrir afkomu reikningsskila samanborið við fjárhagsáætlun liðins reikningsárs
8. grein.
Aukafundi skal halda svo oft sem þurfa þykir og ef 1/5 félagsmanna æskir þess skriflega. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum.
9. grein.
Fé því sem félagið kemst yfir með starfsemi sinni eða eignast á annan hátt skal varið til greiðslu skulda félagsins og kostnaðar við starfsemi þess.
Verði ágóði af starfsemi félagsins, skal hann mynda sjóð til eflingar starfsemi félagsins. Sjóðurinn skal ávaxtaður í viðurkenndri bankastofnun.
Félagsfundur getur samþykkt að ráðstafa sjóðum félagsins á annan hátt, sé helmingur félagsmanna mættur á fundinum, þó er stjórn heimilt í sérstökum afmörkuðum tilfellum að ráðstafa allt að 1/5 hluta af peningaeign félagsins.
10. grein.
Nú tekur félagið á leigu eða til rekstrar húsnæði til starfsemi sinnar, skal ákvörðun um það tekin á félagsfundi enda séu 3/4 hlutar fundarmanna samþykkir.
11. grein.
Hætti félagið starfsemi sinni skulu eignir þess afhentar Sjálfsbjörg, landssambandi hreyfihamlaðra til varðveislu, uns annað leikfélag með sambærileg markmið verður myndað og skal það þá erfa eignirnar.
12. grein.
Tillögum til lagabreytinga skal koma til stjórnar eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Lagabreytinga skal geta í aðalfundarboði og liggja frammi hjá stjórn til skoðunar fyrir félagsmenn.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og séu 3/4 hlutar fundarmanna með breytingunni. Lagabreytinga skal getið í fundarboði.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Þannig samþykkt á aðalfundi Halaleikhópsins 19. maí 2021.
Fyrri lög má lesa hér: Lög Halaleikhópsins 2020