Kirkjugarðsklúbburinn
Höfundur Ivan Menchell. Leikstjóri Pétur Eggerz.
Frumsýning 8. mars 2024.
Kirkjugarðsklúbburinn er verk um vináttu og ástir eldra fólks. Aðstæður eru breyttar hjá Idu, Doris og Lucille sem eru búnar að missa lífsförunauta sína. Ekkjurnar takast á við sorgina með ólíkum hætti. Þær fara saman að vitja leiða eiginmannanna í kirkjugarðinum einu sinni í mánuði og allt er með kyrrum kjörum þangað til Sam kemur til sögunnar, sem kemur reglulega í kirkjugarðinn í sömu erindagjörðum og vinkonurnar. Í kjölfar þess kemur ástin til sögunnar og lífsmynstri þeirra og jafnvel vináttu er ógnað.
Vinkonurnar eru ekki sammála um hvernig ekkjur eiga að haga sér enda hafa hjónaböndin verið mis góð. Lucille sem hefur verið ekkja í skemmstan tíma, reynir að bera sig vel og er kaldhæðin og gamansöm en þegar allt kemur til alls tilfinningarík og góð manneskja.
Doris er fremur stíflynd kona en góð inn við beinið, hún vill vera trú minningu mannsins síns eins og hún var honum trú meðan hann lifði. Hún efast aldrei og gengur jafnvel skrefinu of langt þegar hún vill verja heiður og siðsemi Idu.
Ida er eðlilegust af vinkonunum og reynir oft að semja friðinn á milli hinna tveggja. Hún er umburðarlyndust af þeim og tekur dauðsfalli mannsins síns ekki með eins öfgakenndum hætti og hinar tvær. Hún sættir sig við að hann sé dáinn og vill halda áfram að Iifa lífinu eins eðlilega og henni er unnt.
Sam er kjötiðnaðarmaður, góður og óframfærinn. Hann er ekkill og á erfitt með að fara út með konum, þar sem hann ber þær alltaf saman við eiginkonuna sína sálugu. Síðan verður Sam ástfanginn og þá fara hlutirnir að gerast.
Fjórða konan, Mildred kemur við sögu í verkinu hún er hálfgerð glenna og er væntanlega ætlað að undirstrika samheldni vinkvennanna þriggja og kannski fjöllyndi Sams.
Kirkjugarðsklúbburinn fjallar í hnotskum um mannlegar tilfinningar og hvernig fólk bregst við hinum ýmsu uppákomum daglegs lífs. Kjarni málsins er sá að fólk verður að sleppa takinu, njóta þess sem liðið er í stað þess að ríghalda í það sem raunveruleika.
Kyningarstikla
Um höfundinn
Ivan Menchell er fæddur og uppalinn í New York. Þegar hann var ungur að árum fór hann að semja verk fyrir leikhús ásamt föður sínum sem var gamanleikari og samdi sjálfur sín eigin skemmtiatriði. Eftir andlát föður síns snéri Menchell sér alfarið að leikritun.
Menchell fór í framhaldsnám við Yale School of Drama. 23 ára samdi hann sitt fyrsta sviðsverk í fullri lengd sem var Kirkjugarðsklúbburinn og var það sett á svið í leikhúsi skólans árið 1987. Skömmu síðar tók Broadway verkið til sýningar og var það í fyrsta sinn sem leikrit eftir nemanda við Yale School of Drama var sýnt þar. Frægð Menchells hefur borist víða en Kirkjugarðsklúbburinn hefur verið færður upp víðsvegar um Bandaríkin, Bretland og á Norðurlöndunum.
Um leikstjórann
Pétur Eggerz er fæddur og uppalinn í Reykjavík, lengst af í Breiðholtinu. Eftir nám í bókmenntafræði við Háskóla Íslands nam hann leiklist í Lundúnum og útskrifaðist þaðan 1984. Hann hefur tekið þátt í leiksýningum hjá Leikfélagi Akureyrar, Þjóðleikhúsinu, Alþýðuleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur og víðar. Honum hefur einnig brugðið reglulega fyrir í kvikmyndum og sjónvarpi. Þá vann hann um hríð við dagskrárgerð á Rás 1.
Pétur var einn stofnenda Möguleikhússins árið 1990 og starfaði þar í nær þrjá áratugi sem leikari, leikstjóri og höfundur. Meðal verka sem hann vann fyrir Möguleikhúsið má t.d. nefna Eldklerkinn, einleik sem fjallar um séra Jón Steingrímsson. Þá hefur hann ásamt Guðna Franzsyni séð um heimsóknir íslensku jólasveinanna í Þjóðminjasafnið allt frá árinu 1995.
Pétur er einnig menntaður leiðsögumaður og hefur gegnum tíðina þvælst talsvert með ferðamenn um landið.
Persónur og leikendur
Fólkið bak við tjöldin
Fleiri sem koma að sýningunni á einn eða annan hátt
og hópurinn
Páll Guðjónsson
Hrönn Harðardóttir
Jón Gunnar Axelsson
Gunnar Jónsson
Alexander Ingi Arnarson
Jóhann G. Thorarensen
Margrét Eiríksdóttir
Sóley Björk Axelsdóttir
Ása Hildur Guðjónsdóttir
Helga Jónsdóttir
Hekla Sigrúnardóttir
Myndir frá æfingum
Kveðja frá Bandalagi íslenskra leikfélaga
Halaleikhópurinn er aðili að BÍL, samtökum áhugaleikfélaga á Íslandi.
BÍL vinnur að þróun og eflingu leiklistar með því að stuðla að uppbyggingu og að halda á lofti gildi þeirrar reynslu sem fæst með samstarfi og í samneyti við annað fólk. Í þeim anda óskum við Halaleikhópnum til hamingju með sýninguna og ykkur, kæru áhorfendur, góðrar skemmtunar.
Stjórn og starfsfólk BÍL.
Sérstakar þakkir
Sérstakar þakkir Sjálfsbjörg lsh., Öryrkjabandalag Íslands, Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborg, Akkur, Sjálfsbjargarheimilið, Hertex, Sigurður og Alda hjá Fagefni, Þórður Örn Guðmundsson, Guðjón Sigvaldason, Unnur Kristleifsdóttir og Kristín Viðarsdóttir.
Halaleikhópurinn þakkar öllum, sem hafa lagt honum lið við að koma upp þessari sýningu.
Aðstandendur frá sérstakar þakkir fyrir þolinmæði á æfingatímabilinu.