Skipurit Halaleikhópsins

Skipurit Halaleikhópsins 2008 - 2009

Skipurit er leiðbeinandi skjal um verkaskiptingu í leikhúsinu.

Formaður:

  • Boðar fundi stjórnar, félags- og aðalfundi. Er fundarstjóri, nema á aðalfundi.
  • Er andlit félagsins út á við. Annast samskipti við opinbera aðila og aðra fyrir hönd félagsins.
  • Hefur góða yfirsýn yfir starfsemi félagsins.
  • Miðlar upplýsingum úr formannapósti til stjórnar og félagsmanna.
  • Sér um verkaskiptingu á skilgreindum verkefnum sem upp koma hverju sinni.
  • Er vakandi fyrir því sem betur mætti fara í starfsemi félagsins.
  • Skal halda góðu sambandi við félagsmenn og reyna að virkja sem flesta til starfa.

Varaformaður:

  1. Tekur yfir starf formanns í forföllum hans.
  2. Þarf að starfa náið með formanni og hafa góða yfirsýn yfir störf formanns.
  3. Formaður og varaformaður eru ábyrgir fyrir góðu upplýsingaflæði sín á milli og innan félagsins.
  4. Er tengiliður og hefur umsjón með þeim leikstjórum sem félagið kann að ráða til sín á starfsárinu.
  5. Er almennur stjórnarmaður.
  6. Er vakandi fyrir því sem betur mætti fara í starfsemi félagsins.
  7. Skal halda góðu sambandi við félagsmenn og reyna að virkja sem flesta til starfa.

Gjaldkeri:

  • Hefur yfirumsjón og ábyrgð á fjármunum félagsins, svo sem greiðir reikninga, ávaxtar fjármuni, innheimtir félagsgjöld o.s.frv.
  • Sér til þess að reikningar séu endurskoðaðir og skilar ársuppgjöri á aðalfundi.
  • Tekur við uppgjöri frá miðasölustjóra hverju sinni.
  • Sér um að samþykkja öll útgjöld áður en þau fara fram
  • Sækir um alla styrki, ásamt öðrum í styrkjanefnd sem stjórn kýs og fær aðra til aðstoðar ef þörf krefur.
  • Sér til þess, í samráði við þann sem umsjónamann félagatals, að félagatal sé rétt.
  • Sér til þess að aðhalds og hagsýni sé gætt í rekstri félagsins.
  • Annast samningagerð, ásamt formanni, við leikstjóra svo og aðra starfsmenn sem eru ráðnir.
  • Er vakandi fyrir því sem betur mætti fara í starfsemi félagsins.
  • Skal halda góðu sambandi við félagsmenn og reyna að virkja sem flesta til starfa.

Ritari:

  1. Heldur fundagerðabók, skráir það sem fram kemur á stjórnarfundum og annað markvert utan þeirra.
  2. Heldur saman öllu sem félagið gefur út, svo sem fréttabréfum, leikskrám, myndum og pistlum.
  3. Gerir uppkast að félagsfundar- og aðalfundarboðum ásamt formanni.
  4. Hefur yfirumsjón með útgáfu fréttabréfa að hausti og að vori (fyrir aðalfund), auk annarra tilkynninga, í samvinnu við stjórn félagsins.
  5. Er vakandi fyrir því sem betur mætti fara í starfsemi félagsins.
  6. Skal halda góðu sambandi við félagsmenn og reyna að virkja sem flesta til starfa.

Meðstjórnandi:

  1. Starfar vel að þeim verkefnum sem meðstjórnanda kunna að vera falin.
  2. Tengiliður milli stjórnar og starfsmanna.
  3. Annast fjölritun handrita.
  4. Er vakandi fyrir því sem betur mætti fara í starfsemi félagsins.
  5. Skal halda góðu sambandi við félagsmenn og reyna að virkja sem flesta til starfa.
  6. Sér um að finna húsnæði fyrir frumsýningarpartý.

Varastjórnarmenn:

  • Eru boðaðir á stjórnarfundi og æskilegt er að þeir mæti.
  • Skulu fylgjast vel með störfum stjórnar.
  • Leysa af aðalstjórnarmenn í forföllum þeirra.
  • Ganga til liðs við framkvæmdastjóra sýninga og taka að sér vinnu við sýningar.
  • Eru vakandi fyrir því sem betur mætti fara í starfsemi félagsins.
  • Skulu halda góðu sambandi við félagsmenn og reyna að virkja sem flesta til starfa.

Styrkjanefnd:

  1. Sér um að sækja um styrki í samráði við gjaldkera.
  2. Fylgist vel með auglýsingum um styrki og leitar allra leiða við að leita uppi styrktaraðila.
  3. Útbýr styrkumsóknir og skilar þeim inn á tilteknum tíma. Sér um að ávallt sé til afrit af öllum styrkumsóknum og heldur þeim til haga í sér möppu ásamt þeim svörum sem berast við þeim.
  4. Skilar inn greinargerðum vegna styrkumsókna tímanlega, ef um það er beðið.


Önnur störf:

Framkvæmdastjóri sýningar:

Stjórn ræður framkvæmdastjóra vegna hverrar sýningar, en hann velur sér síðan eftirtalda starfsmenn í samvinnu við stjórn og leikstjóra eftir því sem við á:

    1. Miðasölustjóra
    2. Leikskrárstjóra
    3. Fjölmiðlafulltrúa
    4. Tæknimenn
  1. Halda skal vikulega framkvæmdastjórnarfundi, t.d. hálftíma fyrir æfingu á föstum vikudegi. Framkvæmdastjórn skipa eftirfarandi: Framkvæmdastjóri, leikstjóri, aðstoðarleikstjóri, fjölmiðlafulltrúi, búningahönnuður, leikmyndahönnuður, ljósahönnuður og tónlistarstjóri.
    Aðrir, s.s. leikskrár-, leikmuna- og förðunarfólk, skal kallað til eftir þörfum. Þá skal sýningarstjóri koma inn í dæmið, þegar fram í sækir. Á fyrstu fundum framkvæmdastjórnar skal unnin vinnuáætlun fyrir alla sýninguna, þar sem greind eru tímamörk fyrir leikmynd, búninga, ljós, leikmuni og annað. Þessari áætlun skal framkvæmdastjóri sjá til að fylgt sé eftir. Val á leikurum í hlutverk er ekki einkamál leikstjórans og skal fjallað um það.
  2. Hefur yfirumsjón með að störf framkvæmdastjórnar séu unnin.
  3. Framkvæmdastjóri þarf að hafa gott samstarf við stjórn.
  4. Framkvæmdastjóri boðar og/eða afboðar sýningar að höfðu samráði við stjórn og sýningarstjóra.
  5. Framkvæmdastjóri er ábyrgur fyrir öllum frágangi og skilum á lánshlutum eftir að sýningum lýkur og skilar uppgjöri til gjaldkera.
  6. Framkvæmdastjóri er sá sem tekur fyrst til starfa og hættir síðastur. Hans starf er að annast yfirverkstjórn uppsetningarinnar. Leikstjóri ræður á leiksviðinu, en framkvæmdastjóri ræður utan leiksviðsins. Mikilvægt er að framkvæmdastjóri sé vel inni í öllum þáttum uppsetningarinnar og fylgist grannt með.
  7. Eitt fyrsta verkið er að útbúa fjárhagsáætlun. Hún skal samin í samráði við aðra framkvæmdaraðila verksins og stjórn leikfélagsins. Skila skal nákvæmu bókhaldi. Kostnaðaráætlunin skal endurskoðuð með jöfnu millibili á æfingatímabilinu og er sparnaður lykilorðið hér. Sjá til þess að allir haldi sig innan marka áætlunarinnar.
  8. Er viðbúinn að leysa óvænt vandamál.
  9. Heldur lista yfir þá muni, tæki og tól sem fengin eru að láni eða tekin eru á leigu, í samvinnu við aðstoðarleikstjóra. Fram komi: hver fékk lánað, hvaðan, greiðsla (ef e-r), hvenær er lofað að skila. Hafa umsjón með að öllu sé skilað og borgað fyrir og eftir sýningar.
  10. Boðar brunavörð til úttektar á sýningu og eldvörnum hússins þegar leikmynd er tilbúin. Þó ekki seinna en 2 vikum fyrir frumsýningu. Upplýsir leikmyndahönnuð um þau atriði sem gæti verið sett út á.

Miðasölustjóri:

  1. Skal velja starfsfólk í miðasölu, sælgætissölu, dyravörslu og fatahengi í samráði við stjórn.
  2. Gerir upp hverja sýningu og skilar til gjaldkera.
  3. Sér um skipulag og umsjón miðapantana.
  4. Sér um sælgætissölu og innkaup.
  5. Les inn á símsvara og sér til þess að hann innihaldi ávallt nýjustu upplýsingar.

Leikskrárstjóri:

  1. Ræður tvo starfsmenn í leikskrár-og veggspjaldanefnd.
  2. Finnur einhvern til að útbúa leikskrá og veggspjald eða annað prentað efni vegna sýningarinnar eftir því sem við á. Hefur góð samskipti við þann aðila og hugar vel að tímasetningum.. Sá aðili þarf að geta skilað efni af sér í því formi sem prentsmiðjur þurfa.
  3. Sýnir stjórn og leikstjóra tilbúna próförk af leikskrá a.m.k viku áður en skila þarf til prentunar
  4. Sér um auglýsingaöflun (t.d. styrktarlínusöfnun) – myndatökur (fyrir leikskrá) – söfnun greina og upplýsinga og útgáfu leikskrár ásamt prófarkalestri.
  5. Leitar tilboða vegna prentunar og kemur í prentun tímanlega.
  6. Hefur störf um leið og framkvæmdastjóri.

Kaffi- og þrifumsjónarmaður:

  1. Hefur störf þegar æfingar hefjast. Hellir upp á kaffi og sér um að það sé til nægt drykkjarvatn.
  2. Hefur umsjón með tiltekt í húsnæði Halaleikhópsins.
  3. Skipuleggur búningaaðstöðu fyrir hvern leikara og sér til þess að hún sé notuð.
  4. Sér um innkaup á t.d. hreinlætis- og kaffivörum.
  5. Sér til þess að almennar umgengnisreglur séu haldnar.

Fjölmiðlafulltrúi:

  1. Selur sýninguna!
  2. Athugið að forkynning á verki er mjög mikilvæg.
  3. Hefur störf um leið og framkvæmdastjóri. Helst 2-3 mánuðum fyrr.
  4. Ber ábyrgð á kynningum og auglýsingum – fyrir sýningar og á meðan sýningatímbili stendur.
  5. Kemur fréttatilkynningum á ljósvakamiðla og í öll blöð með myndum, þar sem það á við.
  6. Hefur yfirumsjón með markaðssetningu og auglýsingum á félaginu og verkefnum þess.
  7. Fær fólk til að sinna þessu með sér.
  8. Sér til þess að teknar séu myndir við tækifæri eða atburði sem félagið á í hlut.
  9. Hefur í huga að aðstæður leyfi myndatökur snemma á æfingatímabilinu, þ.e. að búningar og leikmynd séu útbúin til þess tímanlega!
  10. Gætir hagsýni í útgjöldum og hefur samstarf við gjaldkera.
  11. Hefur í huga hvers konar verk er um að ræða, með tilliti til áhorfendahóps, bestu kynningarmiðla og kynningar.
  12. Sér um að leita uppi alla miðla sem hafa fríar auglýsingar og tilkynningar og sendir á það auglýsingar jafnóðum.
  13. Sendir út fréttatilkynningar til allra miðla þess efnis að æfingar séu að hefjast/hafnar og síðan aðra skömmu fyrir frumsýningu. Athugar að nýta sér vel ef um nýtt verk er að ræða eða annað sérlega fréttnæmt um sýninguna.
  14. Útbýr lista yfir fyrirtæki og stofnanir með tilliti til markhóps og kynningar.
  15. Útvegar viðtöl í allar tegundir miðla. Setja það í gang með mjög góðum fyrirvara. Fylgir öllu eftir og ýta vel á fjölmiðlafólk.
  16. Athugið að fréttir á sjónvarpsrásum eru mjög sterkur miðill. Vera á verði gagnvart fréttnæmum atburðum sem tengjast sýningunni eða félaginu, beint eða óbeint.
  17. Býður fjölmiðlafólki á æfingar, jafnvel í byrjun. Sumir fjölmiðlar birta ekki gagnrýni um áhugaleikhús.
  18. Fylgist með uppsetningunni frá upphafi og mætir reglulega á æfingar.
  19. Hefur skriffinnsku á hreinu! Skrifar hjá sér við hvern var rætt, hvaða dag, klukkan hvað, inntak samtals, hvenær hafa skuli samband næst, og annað sem máli skiptir.
  20. Kannar tímanlega í samráði við stjórn og leikara mögulega sýningardaga.

Tæknimenn:

  1. Ljósahönnuður
  2. Ljósamenn
  3. Hljóðmenn
  4. Leikmyndasmiðir
  5. Málarar
  6. Búningafólk
  7. Sminkur
  8. Sviðsmenn
  9. Leikmunaverðir

Æskilegt er að hver starfsmaður fái eða komi sér upp möppu með frekari uppástungum og minnispunktum varðandi sitt starfssvið.

Aðstoðarleikstjóri:

  1. Er hægri hönd leikstjóra á æfingatímabilinu og vinnur í nánu samstarfi við stjórn.
  2. Lætur alla vita ef nauðsynlegt er að gera breytingar á æfingarplani.
  3. Hefur yfirumsjón með hvísli á æfingatímabilinu eða fær fólk í það.
  4. Er síðasti maður út úr húsnæðinu, slekkur, lokar gluggum og læsir.

Sýningarstjóri:

  1. Sýningarstjóri stjórnar sýningunni.
  2. Sýningarstjóri þarf að kunna sýninguna mjög vel og sjá til þess að ekkert fari úrskeiðis baksviðs og að allar skiptingar gangi snuðrulaust fyrir sig. Gott er að taka ljósmynd af hverju sviði og hengja á vegg nálægt aðalinnkomu á sviði. Einnig lista yfir leikmuni hvers og eins og annan lista yfir almenna leikmuni. Leikmunir sem fleiri en einn notar eru á ábyrgð sýningarstjóra.
  3. Ber ábyrgð á tímasetningum, réttum innkomum og að allir og allt sé til reiðu þegar hver sýning hefst.
  4. Ákveður hvenær sýning hefst og sér um tímatöku í hléi.
  5. Grípur inní ef einhver vandamál koma upp.
  6. Sýningarstjóri tilkynnir öllum aðilum þegar hleypt er í salinn.
  7. Hefur auga með að leikarar séu tilbúnir að fara inn á svið, þegar þeim ber. Ábyrgðin er þó alfarið leikarans.
  8. Sýningarstjóri er framkvæmdaaðili kynninga í fyrirtækjum/skólum/stofnunum. Framkvæmdastjóri sér um skipulagningu í samráði við fjölmiðlafulltrúa.
  9. Síðasti maður úr húsi á að vera sýningarstjóri. Slökkva ljós og á tækjum, læsa hurðum, kanna húsið með eldhættu í huga .
  10. Heldur gott tímaplan. Sér til þess að allir mæti 2 tímum fyrir sýningu.
  11. Fer yfir leikmuni og sviðsmynd fyrir sýningar.
  12. Sér um að leikarar og tæknimenn séu ekki ónáðaðir (u.þ.b. 20 mínútum fyrir sýningu).
  13. Hefur umsjón með hvenær áhorfendum er hleypt í salinn.
  14. Er tengiliður milli tæknimanna, miðasölu og leikara tveim tímum fyrir sýningu og þar til áhorfendur eru farnir úr sal.
  15. Sér um að geyma verðmæti fyrir leikara.
  16. Sér um að loka öllum dyrum og athuga að neyðarútgangar séu í lagi.

Sviðs- og Leikmunavörður:

  1. Fylgist með fyrir og eftir sýningar að allir leikmunir séu á sínum stað.
  2. Fær skrá frá leikstjóra fyrir frumsýningu yfir þá leikmuni sem eru í notkun og hverjir nota þá, hvar og hvenær.

Umsjónarmaður förðunardeildar:

  1. Hefur yfirumsjón með öllu sminki og efnum til förðunar og hárgreiðslu í eigu félagsins.
  2. Sér um að efni til förðunar og hárgreiðslu séu í aðgengilegu horfi.
  3. Skal fylgjast vel með útlánum og passa að vörum sé skilað eða greitt fyrir.
  4. Að sjá til þess að gengið sé vel frá fyrir og eftir sýningar og í lok leiktímabils.
  5. Hefur gott samstarf við leikstjóra.
  6. Athugar að gæta aðhalds og hagsýni við innkaup til förðunar.
  7. Reynir að fá til liðs við sig aðra félaga.
  8. Skal tilnefna einhvern í sinn stað í forföllum sínum.
  9. Á að vera í góðu sambandi við stjórn.

Ljósameistari:

  1. Hefur yfirumsjón með ljósa-og tæknibúnaði. Sér til þess að hann sé ávallt tryggilega frágenginn.
  2. Sér til þess í samráði við gjaldkera að leiga sé innheimt þegar um það er að ræða.
  3. Skal hafa gott samstarf við leikstjóra.
  4. Sér um að gera tillögu til stjórnar um kaup á æskilegum tæknibúnaði eða endurnýjun búnaðar.
  5. Fær til liðs við sig aðra félaga.
  6. Tilnefnir einhvern í sinn stað í forföllum sínum.
  7. Er í góðu sambandi við stjórn félagsins.

Umsjónarmaður búningadeildar:

  1. Hefur umsjón með búningaeign félagsins.
  2. Sér um að koma búningum og öðru þeim tilheyrandi í aðgengilegt horf.
  3. Passar að útlán og útleiga sé skráð og fylgist með að öllu sé skilað.
  4. Skal ganga vel frá öllum búningum.
  5. Hefur gott samstarf við leikstjóra.
  6. Sér um að aðhalds og hagsýni sé gætt við innkaup til búningagerðar.
  7. Gerir kostnaðaráætlun í samráði við gjaldkera vegna búninga.
  8. Fær til liðs við sig aðra félaga.
  9. Tilnefnir einhvern annan í forföllum sínum.
  10. Er í góðu samstarfi við stjórn.

Umsjónarmaður leikmyndar:

  1. Hefur yfirumsjón með leiktjöldum og leikmyndasmíði.
  2. Leggur áherslu á nýtni og hagsýni í smíðum .
  3. Gengur vel frá leiktjöldum og leikmynd.
  4. Hefur gott samstarf við gjaldkera varðandi innkaup.

Húsvörður:

  1. Sinnir almennum húsvarðarstörfum (opna, loka, læsa, slökkva hita, loftræsta, laga og redda.
  2. Ber ábyrgð á viðhaldi hússins og innbúi þess, vinnur að álitsgerð þar að lútandi og sér til þess að viðhald sé framkvæmt.
  3. Annast útlán og endurheimt á sínum flokkum með notkun útlánabókar.
  4. Skal sjá til þess að almennar húsreglur séu haldnar.

Almennt:

Í lok hvers vinnutímabils, ættu allir að skila af sér vinnuskýrslu, fara yfir þennan bækling með framkvæmdastjórn verksins og kanna hvernig til tókst.

Búa skal til boðsmiðalista samhliða vinnunni og útbúa síðan endanlegan lista í samráði við framkvæmdastjóra (-stjórn) sýningarinnar.

Listar:

Boðsmiðalisti: framkvæmdarstjóri, í samráði við stjórn og framkvæmdastjórn

PR – listi: fjölmiðlafulltrúi (eigin smíð)

Þessir listar skulu endurnýjaðir fyrir hverja uppfærslu. Í þeim skal tilgreint, auk fyrirtækis/stofnunar/einstaklings, þeir tengiliðir sem best er að hafa samband við, símanúmer, netfang, heimilisfang og annað, sem að gagni getur komið.

Ath. að oft getur verið gott að vita hverja má EKKI tala við.