Halaleikhópurinn er áhugaleikfélag sem stofnað var  27. september 1992. Félagið er rekið af félagsfólki sjálfu sem gengur í öll verk og hefur engan launaðan starfsmann. Árlega er sett upp vegleg leiksýning og er þá ráðinn atvinnuleikstjóri til verksins. Einnig eru haldnar stuttverkasýningar sem við stýrum sjálf og ýmsar skemmtanir fyrir félagsfólk og gesti þeirra. Félagar koma úr ýmsum áttum og hafa hæfileika hver á sínu sviði sem kemur sér vel í þeim fjölbreyttu verkefnum sem leysa þarf áður en ljósin kvikna á sviðinu.

Sérstaða Halaleikhópsins birtist í því að þar eru aðstoðarfólk og hjálpartæki velkomin með félögunum í þeim verkum sem þeir taka að sér. Þannig hefur starfið brotið niður múra og stuðlað að auðugra samfélagi þar sem allir geta lagt sitt af mörkum. Halaleikhópurinn er aðili að Bandalagi íslenskra leikfélaga og tekur virkan þátt í starfi þess.

Sýningar Halaleikhópsins vekja jafnan athygli enda hefur félagið verið ófeimið við að kynna þær með ýmsum hætti. Þar er sjaldnast ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur enda jafnan tekist á við þekkt leikskáld, erlend sem íslensk, og ólík leikverk, gaman sem alvöru. Leikhús Halaleikhópsins er staðsett í húsi Sjálfbjargar að Hátúni 12 í Reykjavík þar sem aðgengi er gott. Þar fer einnig almennt félagsstarf leikhópsins fram.

Nánari upplýsingar um sýningar sem Halaleikhópinn hefur sett upp má finna á síðunni leikverk.

 

Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2007 - 2008

ÞjóðleikhúsiðVal Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram fimmtánda leikárið í röð. Dómnefnd Þjóðleikhússins í ár var skipuð Tinnu Gunnlaugsdóttur þjóðleikhússtjóa og Vigdísi Jakobsdóttur, deildarstjóra fræðsludeildar Þjóðleikhússins. Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að velja að þessu sinni:

Gaukshreiðrið eftir Dale Wasserman
í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar og meðförum Halaleikhópsins

Umsögn dómnefndar:
Verkefnaval Halaleikhópsins ber vott um mikinn metnað, kjark og stórhug. Leikhópurinn, sem hefur það að markmiði að „iðka leiklist fyrir alla“ fagnaði fimmtán ára afmæli sínu á þessu leikári. Rétt eins og Halaleikhópurinn hefur auðgað leiklistarflóru áhugaleikfélaga og leiklistar í landinu almennt, öðlast hið þekkta  leikrit Gaukshreiðrið nýjar víddir í meðförum leikhópsins. Fötlun leikenda stendur engan veginn í vegi fyrir túlkun á verkinu, heldur þvert á móti auðgar hana og styrkir. Styrkur sýningarinnar felst þannig ekki síst í sterkri liðsheild, þar sem hver einstaklegur fær að njóta sín á eigin forsendum, þó hlutverkin séu vissulega mismunandi stór. Framsögn er til mikillar fyrirmyndar og sama má segja um hlutun og allan samleik.

Langmest mæðir á þeim Gunnari Gunnarssyni (Gunsó) í hlutverki Randle P. Murphy og Sóleyju Björk Axelsdóttur í hlutverki Ratchet hjúkrunarkonu. Bæði skiluðu þau hlutverkum sínum mjög vel. Leikmynd, búningar, lýsing, hljóðmynd og förðun myndaði sterka heild og einstaklega sannfærandi umgjörð um sýninguna.
 

Kærleikskúlan 2008

kaerleikskula litilStyrktarfélag lamaðra og fatlaðra sæmdi Halaleikhópinn Kærleikskúlunni 2008 sem eru hvatningarverðlaun sem Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri Borgarleikhússins afhenti 26. nóv. sl.

Afhenti hann kúluna meðal annars með þeim orðum að hópurinn hefði sannað sig í hópi áhugaleikhúsa og hefði svo sannarlega kærleikann meðferðis í listinni sem hann sagði vera svo mikilvægt í leikhúsum og að leikhópurinn hefði á engan hátt látið fötlun hindra sig í listsköpun sinni.

 

 

Aðili að Bandalagi íslenskra leikfélaga

Bandalag íslenskra leikfélagaHalaleikhópurinn er aðili að Bandalagi íslenskra leikfélaga sem eru samtök áhugaleikfélaga á Íslandi, stofnuð árið 1950. Í samtökunum eru 62 leikfélög sem starfa vítt og breitt um landið. Fjöldi einstaklinga í félögunum er u.þ.b. 4.000. Bandalagið rekur einu þjónustumiðstöð leiklistarinnar hérlendis og þjónar ekki einungis áhugaleikfélögum, heldur öllum þeim sem starfa að málefnum leiklistar á landinu. Þar eru m.a. seldar förðunarvörur og hárkollur og þar er að finna stærsta leikritasafn landsins. Bandalagið starfrækir
Leiklistarskóla og heldur úti vefnum, www.leiklist.is