Obbosí, eldgos!
Leikstjóri og höfundur er Sigrún Valbergsdóttir.
Frumsýning 10. febrúar 2023.

Við erum  stödd á notalegum sveitabæ, Snortrustöðum, sem býður uppá bændagistingu og ýmsa óvenjulega afþreyingu á meðan á dvölinni stendur. Frumlegt tilboð hefur vakið athygli og bærinn fyllist af gestum, einmitt sama sólarhringinn og allar kýrnar á bænum bera. Bærinn stendur hins vegar á virka eldgosabeltinu og lítið eldgos í næsta nágrenni bæði laðar að og fælir frá. Fjóla bóndadóttir þarf að hafa stjórn á öllu sem á dynur og skyndilega .... nei, hér segjum við ekki meir, en sjón er sögu ríkari. Þessi ótrúlega atburðarás á sér öll á einn eða annan hátt fyrirmynd í raunveruleikanum.

Nánar ...

Nú er hann sjöfaldur - stuttverkadagskrá.
Leikstjóri er Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson.
Frumsýnt 14. febrúar 2020

Sýnd verða verkin: Hverjir voru hvar, Gamli vinur og Kaffi og með því eftir Guðmund Lúðvík Þorvaldsson. Lokakeppnin eftir Halldór Magnússon, Kurteisi eftir Don Ellione, Verkið eftir Örn Alexandersson, Aftur á svið eftir Fríðu Bonnie Andersen. Höfundarnir eiga það sameiginlegt að starfa innan raða BÍL eins og Halaleikhópurinn.

Nánar ...

Maður í mislitum sokkum eftir Arnmund S. Backman
Þröstur Guðbjartsson leikstýrir
Frumsýnt 2. febrúar 2018

Maður í mislitum sokkum fjallar um ekkju sem býr í eldriborgara blokk. Dag einn er hún kemur út úr Bónus situr ókunnur maður í farþegasætinu i bílnum hennar. Maðurinn veit ekki hvað hann heitir, hvar hann býr eða hvert hann er að fara en hann er í mislitum sokkum. Af ótta við almenningsálitið ákveður ekkjan að taka hann með sér heim. Vinkonur hennar og eiginmenn þeirra fléttast inn í málið með tilheyrandi vandræðagangi. Úr þessu tvinnast síðan kostuleg og bráðskemmtileg atburðarás með litríkum karakterum, sýning stútfull af orku og leikgleði.
Þetta stykki á erindi til allra, atburðir sem gerast í þjóðfélaginu er fólk eldist eru hér settir upp á skondinn og hnitmiðaðan hátt. Þarna er vel hægt að hlæja og gráta.

Nánar ...

Ástandið – saga kvenna frá hernámsárunum eftir Sigrúnu Valbergsdóttur og Brynhildi Olgeirsdóttur. 
Leikstjóri er Sigrún Valbergsdóttir.
Frumsýnt 8. febrúar 2019

Leikritið fjallar um fjórar vinkonur sem hittast á kaffihúsi 50 árum eftir hernámið og rifja upp sögur sínar frá þeim árum. Þær eiga sér sameiginlegar minningar því að allar hafa þær orðið ástfangnar af hermönnum sem hér dvöldu á hernámsárunum. Sögur sem þær hafa sumar ekki getað sagt frá fyrr um hvernig líf þeirra var þá og nú. Ýmsar aðrar persónur koma einnig við sögu sem settu svip sinn á borgarbraginn á stríðsárunum, svo sem hermenn, sjoppueigendur, ástandsnefndarmenn, betri borgarar og bílstjórar. Leikur, dans, söngur og tónlist koma þar við sögu en bæði gleði og sorg fylgja þessum sögum.

Nánar ...

Farið eftir Ingunni Láru Kristjánsdóttur
Leikgerð og leikstjórn Margret Guttormsdóttir
Frumsýnt 4. nóvember 2016

Halaleikhópurinn frumflytur nýtt, íslenskt leikverk, Farið, eftir Ingunni Láru Kristjánsdóttur. Verkið var sérstaklega samið fyrir leikhópinn í kjölfar samtals milli höfundar og félaga og byggir það á reynslu og skoðunum þeirra.
Farið er pólitískt leikrit sem gerist um borð í 100 hæða, steinsteyptu geimskipi á ferð um geiminn. Farþegar eiga þar í samskiptum við kerfið um borð og mæta örlögum sínum þegar þeir rekast í horn og passa ekki inn í réttu rammana. Áhorfendur mega búast við sótsvartri háðsádeilu á þá þrautagöngu sem margir notendur velferðarkerfisins upplifa.

 

Nánar ...