Leikhópurinn hefur það að markmiði sínu að iðka leiklist fyrir alla, hann er öllum opinn. Engin inntökupróf eru í Halaleikhópinn, við reynum að finna öllum eitthvað verðugt hlutverk. Allir eru velkomnir, í þessum hóp er fötlun hvorki hindrun né skilyrði heldur tækifæri. Þetta er blandaður leikhópur þar sem hver og einn kemur inn á sínum eigin forsendum.

Til að gerast félagi í þessum frábæra hópi má senda tölvupóst með upplýsingum og óska eftir inngöngu, netfangið er hér neðst á síðunni. Einnig má hafa samband við stjórn og ganga þannig frá beiðninni.

Í hópnum er þörf fyrir allskyns hæfileika, það er í mörg horn að líta við rekstur hans. T.d. þarf leikara, leikritaskáld, ljósamenn, hljóðmenn, tæknimenn, formann, gjaldkera og fleira stjórnarfólk, leikmyndasmiði, málara, sminkur, hárgreiðslufólk, söngvara, hljóðfæraleikara, saumakonur, búningahönnuði og hönnuði af öllu tagi, hugmyndaríkt fólk, miðasölufólk, ýmis eldhúsverk þarf að vinna og ræstitæknar eru mikilvægir, einhvern til að hughreysta og knúsa þegar mikið gengur á, aðstoðarfólk af ýmsu tagi, auglýsingahönnuð, fólk sem getur hjálpað við styrkumsóknir, fjáröflunarfólk, leikskrárhönnuði, bakara, einhver þarf að vinna í sjoppunni og sjá um hana, fólk til að hengja upp auglýsingar, einhvern sem brosir, upplýsingafulltrúa, tölvumann, einhvern til að sjá um heimasíðuna og er hér bara fátt eitt upptalið. Við þurfum semsagt fólk með mismunandi hæfileika. Allir geta eitthvað, að deila hæfileikum sínum með þessum hóp er tóm gleðiuppspretta bæði fyrir þann sem veitir og þiggur og deilir því með öðrum.