Batnandi maður
eftir Ármann Guðmundsson í leikstjórn höfundar
Frumsýnt 24. feb. 2007
Um leikritið:
Batnandi maður fjallar á gráglettinn hátt um sjómanninn Sigmar sem fengið hefur nóg af sjómennsku og sér tækifæri þegar hann lendir í vinnuslysi til þess að láta úrskurða sig öryrkja og njóta þannig lífsins á kostnað skattborgaranna.
Hann sogast brátt inn í heim sem var honum að öllu ókunnugur, eignast nýja vini og óvini, lendir í útistöðum við kerfið og verður svo sannarlega reynslunni ríkari. En þegar upp er staðið er líf öryrkjans kannski ekki alveg eins ljúft og hann taldi í fyrstu. Hvernig getur hann orðið 0% öryrki aftur? Dugir eitthvað minna en kraftaverk?
Þetta er ýkjukennt raunsæisverk með kaldhæðnum ádeilubroddi, sem fjallar á ábyrgðarfullan og fordómalausan hátt, bæði um fordóma gagnvart öryrkjum og fordóma gagnvart þeim sem hafa fordóma gagnvart öryrkjum.
Persónur og leikendur eru:
sjómaður:
Kristinn Þorbergur Sigurjónsson
vinur hans:
Gunnar Gunnarsson
nágranni Sigmars:
Jón Eiríksson
nágranni Sigmars:
Sóley Björk Axelsdóttir
þjálfari Boccialiðsins:
Hanna Margrét Kristleifsdóttir
tryggingalæknir:
Örn Sigurðsson
fulltrúi hjá Tryggingastofnun:
Stefanía Björk Björnsdóttir
húsnæðisfulltrúi:
Guðríður Ólafsdóttir
Leiðtogi trúfélagsins Fossins:
Ásdís Úlfarsdóttir
Jeremiah B. Lightfoot, bandarískur kraftaverkalæknir:
Þröstur Steinþórsson
Gestur á diskóteki:
Magnús Addi Ólafsson
meðlimur Hátúnsmafíunnar:
Guðný Alda Einarsdóttir
meðlimur Hátúnsmafíunnar:
Jón Freyr Finnsson
meðlimur Hátúnsmafíunnar og aðstoðarmaður í Fossinum:
Þorkell Guðlaugur Geirsson
barn:
Hekla Bjarnadóttir, 9 ára
Kristinn S. Axelsson
Björk Guðmundsdóttir
Um leikstjórann
Ármann Guðmundsson er fæddur 25. október árið 1968 á Húsavík. Afskipti sín af leiklist hóf Ármann í Menntaskólanum á Akureyri þar sem hann m.a. samdi tónlist fyrir sýningu LMA á Draumi á Jónsmessunótt.
Hann gekk til liðs við Hugleik árið 1991 og tók þátt í að skrifa Fermingarbarnamótið sem sýnt var veturinn '91-'92. Veturinn eftir sýndi Hugleikur Stútungasögu sem Ármann skrifaði ásamt Hjördísi Hjartardóttur, Sævari Sigurgeirssyni og Þorgeiri Tryggvasyni en þau hafa síðan skrifað saman fyrir Hugleik Fáfnismenn ('95) og Sirkus ('04).
Ármann er jafnframt einn af höfundum verkanna Embættismannahvörfin ('97) og Ég sé ekki Muninn ('00) sem Hugleikur setti upp.
Þeir Ármann, Sævar og Þorgeir hafa einnig skrifað saman verkin Góðverkin kalla! fyrir Leikfélag Akureyrar('93), Bíbí og blakan, sem Hugleikur og Höfundasmiðja Borgarleikhússins settu upp ('96), Vírus fyrir Stoppleikhópinn og Hafnarfjarðarleikhúsið ('99) og Uppspuna frá rótum fyrir Leikfélag Húsavíkur ('00). Einnig sömdu þeir og fluttu kabarettinn Höfuðið af skömminni í Kaffileikhúsinu ('95). Síðast unnu þeir saman að leikverkinu Klaufar og kóngsdætur fyrir Þjóðleikhúsið en það er byggt á nokkrum af sögum HC Andersen og var frumsýnt í byrjun mars 2005.
Ármann hefur á undanförnum árum gert nokkuð af að leikstýra hjá áhugaleikfélögum, bæði eigin verkum og annarra. Frumsamin verk eru Beðið eftir Go.com air hjá Leikfélagi Mosfellssveitar ('02), Salka miðill hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar ('03) sem hann samdi með Gunnari B. Guðmundssyni og leikhópnum og nú síðast Álagabænum ('04) og Uppreisn Æru ('05) hjá Leikfélagi Reyðarfjarðar.
Auk þess hefur hann leikstýrt verkunum Herbergi með útsýni ('01) og Hodja frá Pjort ('06) hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar, Sex í sveit hjá Leikfélagi Dalvíkur ('02), Fróða og öllum hinum grislingunum hjá Leikklúbbnum Sögu ('02), NÖRD hjá Leikfélaginu Hallvarði súganda á Suðureyri ('04) og Jens og Risaferskjan hjá Leikfélagi Sauðárkróks ('05).
Síðastliðinn vetur hefur Ármann ásamt þeim Sævari, Þorgeiri og Snæbirni Ragnarssyni verið höfundar ævintýra Stígs og Snæfríðar í Stundinni okkar. Einnig skipa þeir fjórmenningar, ásamt fleirum, hljómsveitina Ljótu hálfvitarnir.
Ármann Guðmundsson
Aðrir sem koma að sýningunni á einn eða annan hátt:
Ármann Guðmundsson
Ása Hildur Guðjónsdóttir
Vilhjálmur Hjálmarsson
Helga Jónsdóttir
Kristín R. Magnúsdóttir
María Jónsdóttir
Árni Salomonsson
Kristinn Guðjónsson
Leifur Leifsson
Einar Andrésson
Þröstur Steinþórsson
Andri Valgeirsson
Birgir Freyr Birgisson
Kristinn Sigurjónsson
Stefanía Björk Björnsdóttir
Arnar Ágúst Klemensson
Ingimar Atli Arnarson
Bjarni Magnússon
Hanna Margrét Kristleifsdóttir
Sigurgeir Baldursson
Anna Guðrún Sigurðardóttir
Guðný Guðnadóttir
Bára Jónsdóttir
Kristín Viðarsdóttir
Kristinn Guðmundsson
Myndir
Einkatíminn
Örorkumatið
Hjá húsnæðisfulltrúa
Hjá Tryggingastofnun ríkisins
Hátúnsmafían
Á djamminu
Á djamminu
Kraftaverkasamkoman
í Fossinum
Kraftaverkapresturinn
Mr. Lightfoot reynir að gera kraftaverk
Úr leikskrá:
Hugleiðingar formanns:
Halaleikhópurinn á fimmtán ára afmæli á þessu ári. Það voru margar kvöldstundirnar sem ég hafði dvalið í hópi vina og talið barst að leikhópnum áður en ég gekk í hann.
Umræðunni fylgdi mikil gleði og kátína er smitaði þannig út frá sér að í ársbyrjun 2000 mætti ég á mína fyrstu æfingu alveg harðákveðin í því að byrja sem varahvíslari. Endirinn varð hins vegar sá að ég kom út sem ein af aðalleikurunum í leikverkinu „Jónatan“ eftir Eddu V. Guðmundsdóttur.
Ég sé alls ekki eftir því þar sem ég fékk tækifæri til að glíma við mikinn texta sem að ég tel að sé einmitt mín sterka hlið.
Á grunnskólaárum mínum hafði ég reyndar tekið þátt í hinum ýmsu uppsetningum til d¿mis á „Nýju fötin Keisarans“ en þar var ég í hópatriði og með lítinn sem engan texta. En í hlutverki mínu í „Jónatan“ fékk ég meiri texta en ég hef áður þurft að glíma við og fannst það frábært.
Þegar ég byrjaði í Halanum þótti mér mjög ánægjulegt að upplifa þá tilfinningu, að þó að maður væri kannski suma daga illa fyrir kallaður, með hárið allt út í loftið, að þá gerði enginn athugasemd við það. Mér finnst þetta vera ein af mörgum jákvæðum hliðum Halaleikhópsins.
Í uppfærslu síðasta árs „ Pókók“ eftir Jökul Jakobsson upplifði ég mjög sérstaka tilfinningu. Það að geta gleymt sér svo algjörlega á sviði, að gleyma sínu daglega amstri og áhyggjum, með því að sökkva sér niður í hlutverkið og einbeita sér að því. Fyrir utan hvað það getur verið þroskandi að taka þátt í leiklist. Það eflir umburðarlyndi, virðingu og traust og það að geta sett sig í spor annarra, sem að er lykilþáttur að góðum samskiptum.
Eftir að hafa tekið þátt í fjórum uppfærslum hjá Halaleikhópnum er ég reynslunni ríkari og sé betur hvar hæfileikar mínir liggja.
Það er von mín að leikarar í uppfærslu afmælisársins „Batnandi maður“ eftir Ármann Guðmundsson finni þá sérstöku tilfinningu að geta gleymt sér í hlutverkinu og njóti stundarinnar á sviðinu og þá munu áhorfendur án efa njóta verksins.
Um leið vil ég óska okkur öllum til hamingju með fimmtán árin og megi framtíðin verða Halaleikhópnum gæfurík.
Ásdís Úlfarsdóttir, formaður Halaleikhópsins.
Ásdís Úlfarsdóttir formaður
Afmæliskveðja
frá Helga Seljan:
Það er mér einkar ljúft að setja fáein orð á blað af því tilefni að Halaleik-hópurinn verður 15 ára og hlýjar verða heillaóskir mínar til ykkar allra.
Þessi karski hópur framtakssamra fullhuga hefur veitt mér ófáar ánægjustundir, hvort sem leikið hefur verið á létta strengi eða alvaran setið í öndvegi. Það eitt skal fullyrt að margir glæsilegir leiksigrar hafa verið unnir á þessum árum og fólk virkilega notið þess að bregða sér í annað gervi, tileinka sér einkenni annarrar persónu og með því móti fengið að túlka hina sammannlegu eiginleika með hinum ýmsu tilbrigðum.
Sá er sigurinn máske mestur að sanna það svo rækilega, að þegar kemur að leiksviðinu þá skiptir fötlunin ekki máli hvað varðar mannlegt innsæi og tjáningu hinna ýmsu litbrigða lífs okkar, svo sem raunar gildir einnig á sjálfu leiksviði lífsins, þar sem kraftar allra fá að njóta sín ef rétta umgjörðin er fyrir hendi svo og ytri aðstæður allar.
Þau eru mörg minnisstæðu hlutverkin í hinum fjölmörgu sýningum Halaleikhópsins sem nú bregður fyrir hugskotssjónum og alltaf hefi ég farið ánægjunni auðugri af hverri sýningu, stundum geislandi glaður yfir góðri skemmtan, stundum hugsi um lífið og tilveruna, en alltaf hef ég getað dregið af hverri sýningu dýrmætan lærdóm.
Allra meina bót, Gullna hliðið, Fílamaðurinn, Nakinn maður og annar í kjólfötum svo eitthvað sé nefnt, enda er það eitt einkenna og í raun aðalsmerki Halaleikhópsins að ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur leggja þau ótrauð til atlögu við sérhvert verkefni og hafa ævinlega sigur.
Þakklátum huga sendi ég ykkur hamingjuóskir í þeirri einlægu fullvissu að enn eigið þið eftir að reisa merkið hátt, vinna sigra á sviðinu, finna mátt ykkar og megin og eiga baráttuanda bjartsýninnar, hæfileikana hafið þið sannarlega sýnt og munuð sýna. Þið eruð birturík rós í barmi okkar samfélags. Megi sú rós blómgast og blessast allur ykkar hagur.
Helgi Seljan
Helgi Seljan
Afmæliskveðja
frá Guðmundi Magnússyni
Halinn 15 ára
Það var síðsumars 1992 að við vorum staddir fyrir framan símabúrið í Hátúni 12, undirritaður og Ómar Walderhaug, en við símann sat Sigurður Björnsson. Ég hafði bryddað uppá því að halda leiklistarnámskeið þá um haustið og við ræddum hver ætti að borga og hvar væri húsnæði. Umræðan fór um víðan völl, en öllum bar saman um að gaman væri að stofna leikfélag fyrir alla, hver sem líkamsgeta manna væri. Ómar hafði spekúlerað í þessu áður og sagði að til að komast í BÍL (Bandalag íslenskra leikfélaga) og þá fá styrki til reksturs varð að stofna sjálfstætt félag, sem ekki væri hluti eða deild í öðru, t.d. Sjálfsbjörg. Það er ekki að orðlengja það, en við ákváðum að boða til fundar um stofnun slíks félags.
Það kom skemmtilega á óvart hve margir sýndu áhuga á málinu, á þriðja tug manna mætti og eftir fjörugar umræður vorum við kosin í undirbúningshóp. Á framhaldsstofnfundi voru samþykkt lög og kjörin stjórn í leikfélag sem fékk nafnið Halaleikhópurinn. Ekki man ég hver átti hugmyndina að nafninu en mönnum fannst skemmtileg hugmynd að „leika lausum hala“, að gömlum íslenskum sið. Í fyrstu stjórn voru kjörin: Ómar Walderhaug, formaður, aðrir í stjórn voru: Sigurjón Einarsson, Þórdís Richter og að mig minnir Sigurður Björnsson, en varamenn Valerie Harris og Guðmundur Magnússon.
Fyrsta verkefni félagsins var að halda leiklistarnámskeið og fengum við til afnota það húsnæði sem nú er Þjónustumiðstöð Sjálfsbjargarheimilisins, en það var þá nýtt, ekki komið í notkun og stóð autt. Námskeiðinu stjórnuðum við feðgarnir, undirritaður og Þorsteinn Guðmundsson leikari. Námskeiðið var mjög vel sótt og endaði með að við sýndum afraksturinn með nokkrum stuttum leikþáttum (skrítlur í leikritsformi) sem notaðir voru á námskeiðinu, fyrir íbúa Sjálfsbjargarheimilisins og ættingja og vini þátttakenda.
Almenn ánægja var með starfið og kom strax krafa um næstu skref. Eftir nokkra umþóttun var ákveðið að ráðast í að setja upp heilt leikrit og varð Aurasálin eftir Moliére fyrir valinu. Leikritið var valið með það í huga að undirstrika þá stefnu félagsins að ekki skildi lögð áhersla á fötlunina, heldur jafnréttið og að það skipti ekki máli hvort t.d. Hamlet eða Skugga-Sveinn væru í hjólastól, með hækjur eða alveg ófatlaðir (hver er það annars?). Innihald verkanna, hinn sammannlegi þáttur var aðalatriðið!
Við fengum aðstöðu til æfinga í kjallara Hátúns 12, með því skilyrði að við tækjum þar til og nýttum aðeins fremri hlutann. Það var samt mikill styrkur í að fá þessa aðstöðu sem þáverandi formaður Sjálfsbjargar lsf. Jóhann Pétur Sveinsson bauð okkur, en hann var alla tíð mikill stuðningsmaður Halans. Æfingar gengu vel þó leikstjórarnir væru tveir, þ.e.a.s. við Þorsteinn, en það gat líka verið kostur þar sem alltaf gat a.m.k. annar mætt á æfingu og stundum hægt að æfa tvær senur á sama tíma.
Svo var það 16. janúar 1993 að frumsýnt var í félagsmiðstöðinni Árseli. Húsnæðið fékkst án leigu og var litið svo á að það væri styrkur frá Reykjavíkurborg. Minnstu munaði að fresta hefði þurft frumsýningunni vegna veðurs, stórhríð og ófærðar um borgina. Slíkt veður brast svo á í hvert sinn sem Halinn frumsýndi næstu ár og var því farið að tala um Halaveðrið nýja. Ekki gátum við sýnt þarna nema tvisvar eða þrisvar, en fengum því næst inni hjá Snúð og Snældu, leikfélagi aldraðra á Hverfisgötu og sýndum þar þær sýningar sem eftir voru. Þar með lauk fyrsta leikári Halaleikhópsins.
Til hamingju með fimmtán ára afmælið í haust!
Þegar kom fram á haust og farið var að huga að næsta verkefni kom Þorsteinn að máli við okkur með drög að nýju leikriti, sem hann hafði samið með leikhópinn í huga, „Rómeó og Ingibjörg”. Nú vorum við líka ákveðin í að laga svo til í kjallaranum að við gætum sýnt þar líka. Leikstjóri að þessari sýningu var Edda V. Guðmundsdóttir, sem líka var með frá upphafi. Og þar með var boltinn farinn af stað og hefur ekki hætt að rúlla síðan.
Guðmundur Magnússon
Guðmundur Magnússon
Síðasta sýning var 22. apríl 2007. Sýningar urðu 11.
Halaleikhópurinn þakkar öllum, sem hafa lagt honum lið við að koma upp þessari sýningu.
Sérstakar þakkir til maka og nánustu aðstandenda fyrir þolinmæðina á tímabilinu.
Brot úr verkinu var einnig sýnt í Borgarleikhúsinu 30. apríl
í Leiklistarveislu í tengslum við listahátiðina List án landamæra.
Styrktaraðilar: