Halafréttir sept. 2015

Kæru félagar.

Nú fer að líða að hausti og vonandi eru allir hressir og kátir eftir sumarið. Vonandi allir tilbúnir að takast á við skemmtilegt starf í Halaleikhópnum í haust og vetur.

Nú stefnir Halaleikhópurinn í ræsið og ætlar að setja upp leikritið Strætið eftir Jim Cartwright. Þetta verk samanstendur af lífssögum fólks sem býr við sömu götu.

Þessi sýning hefur nokkra sérstöðu þar sem hlutverkin geta verið fleiri en tíðkast hefur um skeið. Þó eru sum hlutverkanna þögull leikur/ myndir. Einnig verða hlutar verksins fluttir stakir á haustmánuðum, sumt af því verður notað áfram í heildarverkinu sem áætlað er að sýna í byrjun febrúar eins og undanfarin ár. Annað verður nýtt í stuttverk.

Allt skýrist betur eftir kynningu og félagsfund sem haldinn verður í Halanum, sunnudaginn 13. september kl.14.00, þar mun Guðjón Sigvaldason, nýráðinn leikstjóra okkar, segja frá verkinu.

Það verða því næg verkefni fyrir alla í vetur, hvort sem félagar vilja taka þátt í stuttum verkum eða leikriti í fullri lengd. Okkur vantar fólk á öllum aldri og í alls konar verkefni tengt uppsetningunum. Ekki bara leikara heldur líka leikmyndasmiði, framkvæmdastjóra, ljósmyndara, búningahönnuði, förðunarfólk, grafíska hönnuði, miðasölufólk, málara, smiði, aðstoðarfólk, fjölmiðlafulltrúa, einhvern til að stýra facebook herferð og fleira sem ekki verður talið upp hér.

Fyrstu samlestrar verða 14. og 15. sept. Kl. 20.00 allir velkomnir.

Fjárhagsstaða Halaleikhópsins er ekki sterk og því er mikilvægt að allir félagsmenn séu virkir í vetur. Hjálpumst að við að manna allar stöður og finna þá hluti sem til þarf.

Verkið verður sett upp með lágmarks tilkostnaði. Til þess þarf hugvit og mannskap. Kjörið tækifæri til að leika sér og láta gott af sér leiða í góðum félagsskap.

Gjaldkerinn (Aura –Skottið) vill minna félagsmenn á að borga félagsgjöldin sem eru komin í heimabankann.

Með kveðju.
Stjórn Halaleikhópsins.

 

Ný stjórn Halaleikhópsins 2015 - 2016

Í stjórn Halaleikhópsins 2015 – 2016 eru:

Formaður Vilhjálmur Jón Guðjónsson
Varaformaður Stefanía Björk Björnsdóttir
Gjaldkeri Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir
Ritari Guðríður Ólafs Ólafíudóttir
Meðstjórnandi Margret Guttormsdóttir

Varamenn í stjórn eru:
Ása Hildur Guðjónsdóttir
Friederike Hasselmann
og Jón Eiríksson.