Í dag 27. mars er alþjóðlegur dagur leiklistarinnar
Halaleikhópurinn óskar öllu leiklistarfólki til hamingju með daginn
Ávarp NEATA
Kjarni málsins er …
Í hjarta allrar listar verður að búa áhugamennska.
Eða réttara sagt:
Í hjarta allrar listar hlýtur að búa áhugamennska. Annars eru hún bara varningur. Framleiðsla. Neysluvara.
Þetta er svo augljóst að það er auðvelt að sjást yfir það. Ekki síst á okkar póstmódernu tímum þegar allt er varningur. Næstum allt.
Listin er öðruvísi. Listin verður að vera öðruvísi.
List verður að spretta af ástríðu. Þörf fyrir að rannsaka, miðla og vekja. Og gleðinni sem vel heppnuð rannsókn, miðlun og vakning kveikir með skapara hennar og samverkafólki hans, áhorfendum. Þegar hagnaðarsjónarmiðið er fjarlægt úr jöfnunni verður þetta augljóst. Þegar „atvinnu-“forskeytinu er sleppt. Þegar brauðstritsþörfin er ekki til staðar.
Hvergi er þetta jafn augljóst og í áhugalist, og þá í áhugaleikhúsinu. Þar sem allt sem gert er er, eðli málsins samkvæmt, einungis gert af þörf til að að gera einmitt það . Ekki til að vinna fyrir sér, ekki til að öðlast frægð. Ekki af skyldu eða vana, ekki af því að það var jú þetta sem þú lærðir. Heldur aðeins af ást á listinni. Að kanna tilfinningar og kringumstæður og miðla þeim sannindum sem könnunin leiðir í ljós. Koma móttakandanum, lesandanum, áhorfandanum til að hlæja, gráta, hugsa.
Að þroskast og vera öðru fólki þroskavaki.
Og svo auðvitað af því það er einfaldlega svo skemmtilegt. Eins og lífið er. Eða á að vera.
Þetta er kjarninn, hjartað. Hvort sem þú færð borgað eða ekki, hvort sem þú býrð að formlegri menntun eða ekki, jafnvel þó þú sért alþjóðleg stjarna. Og líka ef þú ert hjúkka, strætóstjóri, nemandi, tannlæknir eða smiður sem kýs að nýta frítímann í þjónustu raddarinnar í hjartanu. Þá er það augljóst.
Svo augljóst reyndar að það er auðvelt að sjást yfir það. Í nútímanum, sem einblínir á gróða og frægð, er ekkert auðveldara en að gleyma hvað býr í hjartanu. Þeir sem stýra fjárveitingum og menningarpólitík virðast oft gleyma þessu.
En við vitum öll betur, innst inni.
Ágústínus kirkjufaðir sagði, eins og frægt er: „Elskaðu Guð og gerðu það sem þú vilt“.
Við leikhúsamatörar – atvinnumenn og við hin – elskum hina duttlungafullu Talíu. Og munum svo sannarlega aldrei hætta að gera það sem við viljum, með þá ást sem okkar helsta vegvísi.
Þorgeir Tryggvason
formaður Bandalags íslenskra leikfélaga
Ávarp LSÍ
Leiksýning er ferðalag ykkar kæru áhorfendur.
VIðbrögð ykkar eru líf ykkar, ef þið eruð snortin þá er það af því þið hafið komist í samband við ykkar eigin líf.
Hlutverk okkar sem stöndum á sviðinu er að fara eins nálægt sjálfum okkur og kostur er, svo þið eigið möguleika að komast nær ykkur. Spegilfrumur eða-hermifrumur áhorfandanna geta komist jafn langt og dýpt sýningarinnar.
Leikhúslistafólk rannsakar á löngu æfingar og sköpunarferli manneskjur, samfélag og sögur og áhorfendur fá tækifæri til að upplifa rannsóknina og ferðalagið á einni kvöldstund.
Rússneskur leikstjóri kenndi mér að enginn kemur í leikhús til að horfa á hversdagslegu mig, ég hef ekki leyfi til að standa á sviði sem hvundagslega ég. Á sviðinu er ég farvegur fyrir ÆÐRI mig. Og ÆÐRI ég erum VIÐ, samvitund. Á sviðinu komum við sameiginlegri vitneskju um lífið og tilveruna í farveg, drögum hana uppá yfirborðið, framköllum það sem við vitum, en vissum oft ekki að við vissum. Hvernig sagan hljómar skiptir ekki öllu, það sem skiptir máli er hvað vaknar? Og við þurfum öll að spyrja okkur vil ég vakna?
Kæru áhorfendur, sögurnar ykkar eru ólíkar.
Megi leikhúsið fara svo nálægt sér í kvöld að þið komist nálægt sjálfum ykkur og ykkar innri töfrum.
Kær – leikur, kærleikur
Halldóra Geirharðsdóttir