Sýningum á 10 litlum strandglópum er lokið. Við þökkum fyrir móttökurnar.
Nánari upplýsingar um sýninguna má finna HÉR
Gagnrýni um sýninguna má finna á vefnum leiklist.is: Tíu litlir strandaglópar
Tíu litlir strandaglópar
Halaleikhópurinn
Tíu litlir strandaglópar eftir Agöthu Christie
Leikstjóri: Guðjón Sigvaldason. Þýðandi: Hildur Kalman
Í fjórða sinn hefur Halaleikhópurinn fengið hinn flinka Guðjón Sigvaldason til þess að leikstýra en fyrri sýningarnar hans þrjár voru hver annarri betri og skemmtilegri. Gaukshreiðrið komst á fjalir Þjóðleikhússins 2008 sem ahyglisverðasta leiksýning þess árs en Fílamaðurinn og Kirsuberjagarðurinn voru ekki síðri uppfærslur. Guðjóni tekst einnig afar vel upp núna þegar hann fæst við eitt þekktasta leynilögguverk Agöthu Christie; þar sem tíu manneskjur sem týna tölunni hver af annari.
Agatha Christie skrifaði verkið fyrst sem skáldsögu og er hún talin hennar þekktasta og vinsælasta saga. Hún hét í upphafi Ten little Niggers þegar hún kom út árið 1939 en nafninu var fljótlega breytt í And Then There Were None. Höfundurinn skrifaði svo leikritið 1943 og hefur það verið sett upp oft og víða ásamt öðrum leikgerðum, bíómyndum og sjónvarpsþáttum eftir sögunni og leikritinu. Í leikskrá Halaleikhópins er sagt frá því að upprunaleg þýðing sé eftir Hildi Kalman en gott hefði verið að fá upplýsingar um hvort hópurinn hafi breytt einhverju eða stytt.
Leiksýningin er skýr og spennandi frá upphafi þar sem tíu manns eru samankomnir á hóteli á lítilli eyju. Fljótlega fer að kvarnast úr hópnum þegar einn deyr af öðrum eða hverfur, eins og í barnavísunum frægu sem allt þetta byggist á; Ten little Indians, Ten little Niggers eða Tíu litlir negrastrákar sem sem kom út hér fyrir tæpum hundrað árum.
Það er feikna mikið mál að leikstýra svo mannmörgu verki þar sem hver hefur sín sérkenni en ekki síður þar sem hvert smáatriði skiptir svo miklu máli. Hver fer út og hver kemur inn, um hvaða dyr, hvenær og hvernig og hvað er hann með í höndunum, hvernig hreyfir hann sig og svo framvegis? Þetta hefur tekist afar vel því spenna ríkir frá fyrstu stundu og eykst þegar á líður. Allir gruna alla, nema morðinginn sjálfur sem fæstir áhorfendur gruna. Auk þess er skemmtilegur og léttur blær yfir leikstjórninni mitt í öllum óhugnaðinum.
Leikurinn var jafn og góður í hópnum því allt var gert af hinni alúðlegu kyrrð sem einkennir Halaleikhópinn. Fremsta verður þó að nefna Margréti Guttormsdóttur sem mikill fengur er fyrir Halann að fá til liðs við sig. Gunnar Gunnarsson var afslappaður og hress í sínu hlutverki og Jón Eiríksson afar öruggur og sannfærandi. Allir töluðu skýrt en það skiptir auðvitað meginmáli í sakamálum þar sem hver ásakar annan og ekkert er á hreinu.
Leikmyndin var stílhrein og falleg og lýsing Benedikts Axelssonar lyfti henni á annað stig. Lagið við barnaþuluna var svo leikið fagurlega á píanó undir morðunum. Heildarmyndin var trú þeim tíma sem verkið er skrifað á.
Gagnrýnandi mælir með Strandaglópunum tíu ef menn vilja bregða sér tæpa öld aftur í tímann og njóta bresks andrúmslofts Agöthu Christie. Það sakar svo ekki að kíkja á netið til að lesa allt um verkið á Wikipediu en alls ekki fyrr en eftir sýningu til að eyðileggja ekki fyrir sér spennuna.
Hrund Ólafsdóttir