Fréttir 2008

Fréttir af vef Halaleikhópsins 2008

 

Kærleikskúlan  

Halaleikhópurinn sendir ykkur sínar bestu óskir um Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Við þökkum samstarfið og hlýjuna á liðnu ári. Og hlökkum til að sjá ykkur á nýárinu í Halanum.

Við stefnum að frumsýningu á Sjeikspírs Karnivali í lok janúar. Leikgerð og leikstjórn Þröstur Guðbjartsson.

 

 

 
26. nóv. 2008

 Allt sem andann dregur

Ása Hildur, Guðný Alda og Kristín með KærleikskúlunaÁsa Hildur, Guðný Alda og Kristín með Kærleikskúluna

 

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sæmdi Halaleikhópinn Kærleikskúlunni 2008. Magnús Geir Þórðarson Borgarleikhússtjóri afhenti Guðný Öldu Einarsdóttur leikkonu fyrsta eintakið við hátíðlega athöfn í Listasafni Reykjavíkur í dag.

Kærleikskúlan er í ár er hönnuð af Gjörningaklúbbnum sem nefnir hana ALLT SEM ANDANN DREGUR. Biskup Íslands blessaði kúluna. Gjörningaklúbburinn var með gjörning við móttökuna.

Tilgangur með sölu kúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna með því að efla starfsemi Reykjadals. Nánari upplýsingar um Kærleikskúluna má finna á vef Styrktarfélagsins.

     

Kærleikskúlan er blásin upp af því dýrmætasta sem hverri lifandi manneskju er gefið - andardrætti.

Andinn í kúlunni er táknrænn fyrir hið ósnertanlega og andlega, langanir og þrár.

Kúlan er kysst þremur kossum sem fela í sér tjáningu ástar, vináttu og þakklætis.

Kyssum hvert annað

 

Kærleikskúlan 2008

 

 

 
2. nóv. 2008

Fréttatilkynning

 
1. samlestur á Karnivalinu
 
 

Halaleikhópurinn hefur nú hafist handa við nýtt leikverk fyrir þetta leikár og ber það vinnuheitið Shakespeare – Karnival. Byrjað var þann 1. nóvember í húsnæði leikhópsins að Hátúni 12.

Leikstjóri hópsins að þessu sinni er Þröstur Guðbjartsson, sem er einnig höfundur leikgerðarinnar en hún er unnin uppúr nokkrum verkum Shakespears, Þrettándakvöldi, Draumi á Jónsmessunótt og Hinrik fjórða. Sögusvið verksins verður byggt á Þrettándakvöldi og mun sagan gerast á einu kvöldi á Karnevali hjá Orsínó hertoga í Illeríu.

Stefnt er að því að frumsýna verkið í janúarlok.

 
27. okt. 2008
 
Gríma

Spennandi GLEÐILEIKUR í uppsiglingu!

 

Viltu starfa með glöðum hópi?. Nú á þessu krepputímabili er tilvalið að hjálpast að, við að halda uppi gleðinni. Bros og hlátur létta lífið. Það kostar lítið, en gefur mikið.

Orsínó greifi sem er aðalpersónan í Karnivalinu sem við erum að fara að æfa er dapur, því koma vinir hans og leika fyrir hann alls kyns gamanleiki til að létta honum lífið í Illiríu. Leikritið gerist á aðalgötunni og nálægri strönd þar sem Karnivalið fer fram. Þetta er leikgerð sem Þröstur Guðbjartsson leikstjóri hefur gert úr nokkrum verkum William Shakespeare, og eru þau úr: Þrettándakvöldi, Draumi á Jónsmessunótt, Hinrik fjórða og jafnvel fleiri leikritum. Söguþráður Þrettándakvölds, verður sem rauður þráður í gegnum sýninguna. Við gefum okkur þær forsendur að þetta gerist allt á einu kvöldi á Karnivali, hjá Orsínó hertoga í Iliríu.

 

gríma

FYRSTI SAMLESTUR...

 

.....verður laugardaginn 1. nóv. kl. 14.00 í Halanum, Hátúni 12. Í verkinu eru minnst 14 leikarar og uppí ? Bæði er um að ræða stór og lítil hlutverk og sum án texta. Í handritinu eru 25 persónur, sami leikari getur tekið fleiri en eina. Nú er tækifæri til að leika sér og segja Kreppunni stríð á hendur með öflugum hóp. Eins og sjá má hér neðar þá þarf mun fleira til en leikara til að setja upp sýninguna og viljum við hvetja alla til að koma og fylgjast með á laugardaginn. Og láta stjórn vita ef þið viljið leggja okkur lið á einn eða annan máta. Allir eru velkomnir.

Við ætlum að haga æfingartímabilinu þannig að við æfum í nóvember, tökum svo frí í desember, en förum svo á fullt strax eftir áramót og stefnum að frumsýningu í lok jan. 2009.

Desember verður notaður til að klára leikmynd, búninga o.fl. sem viðkemur uppsetningunni.

Jóker

SKIPURIT:

 

Stjórn hefur verið að uppfæra skipuritið sem unnið var í fyrra og er hugsað til að dreifa álagi á félagsmenn og stjórn. Einnig til að auðvelda alla vinnu við starfsemi félagsins. Skipuritið má finna hér á vef Halaleikhópsins. einnig er hægt að nálgast það hjá stjórn.

Okkur vantar fólk í eftirfarandi embætti samkvæmt skipulagskránni og jafnvel ýmisleg fleira:

  • Framkvæmdastjóra sýningar
  • Miðasölustjóra
  • Leikskrárstjóra
  • Fjölmiðlafulltrúa
  • Aðstoðar leikstjóri
  • Kaffi og Þrifumsjón
  • Umsjónarmann förðunardeildar og förðunarfólk
  • Ljósameistara – hönnun og lýsing
  • Hljóðmann
  • Umsjónarmann búningardeildar
  • Umsjónamann sviðsmyndar - leikmyndar
  • Sviðs og leikmunavörður
  • Húsvörður
  • Saumakonur
  • Málara
  • Ljósmyndara
  • Einhvern til að taka upp sýninguna

Sjáumst hress á laugardaginn :-)

 
 
12. sept. 2008
 

Leiklistarnámskeið

 
Ása Hildur Guðjónsdóttir og Þröstur Guðbjartsson skrifa undir samninginn
 
 

Halaleikhópurinn heldur 20 tíma leiklistarnámskeið í október. Kennari verður Þröstur Guðbjartsson leikstjóri.

Hann tekur fyrir:

  • Upphitun, bæði líkamleg og raddleg
  • Kontakt og traustæfingar
  • Einbeitingu
  • Raddæfingar, öndun og hljóð
  • Framsögn
  • Spuni hin mismunandi form hans æfð

Námskeiðið hefst 13. okt. og lýkur 25. okt. kennt verður mánudaga til fimmtudaga frá kl. 19.30 til 21.30 og frá 13.00 til 15.00 á laugardögum.

Skráning og nánari upplýsingar í síma 862-4276 og á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Verð er 3000 kr. fyrir skuldlausa félagsmenn og 5000 kr. fyrir aðra.

Allir velkomnir.

 
 
15. sept. 2008
 

Fréttatilkynning:

 

Halaleikhópurinn er kominn á kreik eftir stutt sumarfrí. Þröstur Guðbjartsson hefur verið ráðinn leikstjóri fyrir sýningu vetrarins, jafnframt mun hann halda leiklistarnámskeið í október.

Halaleikhópurinn ætlar að þessu sinni að taka fyrir sýningu með þáttum úr nokkrum verkum Shakespears í Karnivalútsetningu sem samin er af leikstjóranum. Tekin verða fyrir atriði úr Þrettándakvöldi, Draumi á Jónsmessunótt og Hinriki fjórða jafnvel fleiri verkum. Inn í sýninguna verður fléttuð kraftmikill músík.

Þrettándakvöld verður sem rauður þráður gegnum sýninguna. Þær forsendur eru gefnar að verkið gerist allt á einni kvöldstund á Karnivali hjá Orsínó hertoga í Iliríu. Stefnt er að frumsýningu um mánaðarmótin janúar / febrúar 2009.

 
31. ágúst 2008
 

Shakespeare - Karnival

 
Þröstur Guðbjartsson og Ása Hildur Guðjónsdóttir skrifa undir samninga
 

Nú hefur Þröstur Guðbjartsson skrifað undir samning við Halaleikhópinn um að leikstýra okkur í vetur. Verkið sem taka á fyrir er leikgerð Þrastar og ber vinnuheitið Shakespeare - Karnival. Stefnt er að því að æfingar hefjist í byrjun nóvember og tekið frí í desember. Haldið svo áfram þar sem frá var horfið strax eftir áramót og frumsýna um mánaðarmótin jan. - feb. 2009.

Leikgerðin er unnin uppúr nokkrum verkum William Shakespeare, það er - Þrettándakvöldi, Draumi á Jónsmessunótt, Hinrik fjórða og jafnvel fleirum leikritum. Söguþráður Þrettándakvölds verður sem rauður þráður í gegnum sýninguna. Við gefum okkur þær forsendur að þetta gerist allt á einu kvöldi á Karnivali hjá Orsínó hertoga í Iliríu.

Félagsfundur

Félagsfundur verður haldinn
fimmtudaginn 11. september 2008 kl. 20.00
Í Halanum, Hátúni 12

Dagskrá fundar:

  • Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  • Kynning á nýráðnum leikstjóra Þresti Guðbjartssyni
  • Shakespear – Karnival
  • Námskeið í október
  • Önnur mál.
Kaffiveitingar á eftir
 
 
22. ágúst 2008
 

Vetrarstarfið framundan

 
Ása Hildur Guðjónsdóttir formaður og Þröstur Guðbjartsson handsala samninginn
 

Á opnum stjórnarfundi í gær var góð mæting. Þröstur Guðbjartsson kom og kynnti sig og þær hugmyndir sem hann hefur um verkefnaval næsta leikárs. Rætt var fram og til baka um þær hugmyndir sem uppi eru og niðurstaðan varð sú að stefna að því að taka Shakespear fyrir næsta vetur. Þröstur á leikgerð þar sem hann tók kómíska hluta nokkurra verka og setti saman í eitt í bland við músik. Yfirskriftin verður Karnival. Mest eru þetta brot úr Þrettándakvöldi og Draum á Jónsmessunótt og þó fleira týnt til.

Stefnt er að hafa æfingartímabilið með svipuðu sniði og í fyrra auk þess að hafa námskeið í haust, líklega seinnipartinn í október.

Félagsfundur er áætlaður fyrripartinn í september þar sem þetta verður kynnt nánar.

Vinnudagur

Ástandið á Halanum okkar ástkæra er vægast sagt draslaralegt þessa dagana, því boðum við vinnudag sunnudaginn 24. ágúst. Ekki er búið að ganga frá leikmynd og búningum og tæknidóti eftir ferðalagið í Þjóðleikhúsið.

Taka þarf til í öllum hornum, henda, raða, þrífa já og mála anddyrið okkar í bjartari lit. Við vonum að sem flestir sjái sér fært að koma og hjálpa til einhvern part dagsins, við verðum við frá kl. 12.00 og fram eftir degi eða þar til þessu líkur. Magnús þarf líka aðstoð við að hengja upp ljósabúnað ofl. Því fleiri sem koma því fyrr verðum við búin.

Allir geta eitthvað, einhver þarf að laga kaffið og einhver að skemmta mannskapnum á meðan, svo endilega fjölmennið og takið með ykkur vinnufúsar hendur.

Hægt verður að horfa á leikinn á breiðtjaldi uppi í matsal.

 
 
13. ágúst 2008
 

Hala - Fréttir ágúst 2008

 
Leikstjóri ráðinn
 

Þegar velja á leikstjóra er úr vöndu að ráða. Í ár tók stjórn Halaleikhópsins þá ákvörðun að auglýsa eftir leikstjóra. Átta umsækjendur sóttu um, þar af sex sem eru mjög hæfir. Nú var úr vöndu að ráða og buðum við þeim að koma á fund stjórnar og kynna sig og sínar hugmyndir af leikhópnum og væntanlegu verkefnavali. Því er stjórn búin að sitja sveitt í góða veðrinu í sumar og fara yfir alla möguleika. Eftir mikla yfirlegu var ákveðið að ráða Þröst Guðbjartsson.

Næsta skref er svo að velja hvaða verkefni við tökum fyrir og hvort við viljum hafa námskeið í haust eða eitthvað annað

Opinn stjórnarfundur

Fimmtudaginn 21. ágúst kl. 20.00 verður opinn stjórnarfundur þar sem Þröstur kemur og kynnir sínar hugmyndir að verkefnavali og hlustar á okkar. Því viljum við bjóða öllum þeim Halafélögum sem áhuga hafa að koma og taka þátt í umræðunni og koma sínum hugmyndum að. Saman veljum við síðan verk sem við vinnum í vetur.

Þá verður einnig tekin ákvörðun um hvort við höldum leiklistarnámskeið í haust eða hvort við gerum eitthvað allt annað. Gott væri að heyra frá félagsmönnum þeirra óskir og hugmyndir.

BÍL stefnir að því að halda Margt smátt í haust líklega 10. – 12. okt. Gaman væri að koma með atriði frá Halaleikhópnum. Einhverjar hugmyndir ?

Fyrirkomulag æfingatímabilsins í fyrra gafst mjög vel og stefnum við að því að hafa svipað fyrirkomulag í ár. Sem sagt hefja æfingar í nóvember og æfa í 4. vikur. Taka svo hlé fram yfir áramót og stefna að frumsýningu um mánaðarmótin jan. / feb. Hugsanlega taka eina eða tvær æfingar í desember.

Félagsfundur verður svo í september. Nánar auglýst síðar.

Vinnudagur

Ástandið á Halanum okkar ástkæra er vægast sagt draslaralegt þessa dagana, því boðum við vinnudag sunnudaginn 24. ágúst. Ekki er búið að ganga frá leikmynd og búningum og tæknidóti eftir ferðalagið í Þjóðleikhúsið.

Taka þarf til í öllum hornum, henda, raða, þrífa já og mála anddyrið okkar í bjartari lit. Við vonum að sem flestir sjái sér fært að koma og hjálpa til einhvern part dagsins, við verðum við frá kl. 12.00 og fram eftir degi eða þar til þessu líkur. Magnús þarf líka aðstoð við að hengja upp ljósabúnað ofl. Því fleiri sem koma því fyrr verðum við búin.

Allir geta eitthvað, einhver þarf að laga kaffið og einhver að skemmta mannskapnum á meðan, svo endilega fjölmennið og takið með ykkur vinnufúsar hendur.

 
 
18. júní 2008
 

Hala - Fréttir júní 2008

 

Mikil og blómleg starfsemi hefur verið í vetur hjá Halaleikhópnum. Fyrst ber að nefna vel lukkað námskeið sem Ágústa Skúladóttir stjórnaði og nefndi „Sólóstund leikarans.“ Þá tók afmælishátíðin við með tilheyrandi hullumhæi. Edda V. Guðmundsdóttir leikstýrði stuttverkinu „Hvað drap asnann?“, sem Ármann Guðmundsson gaf okkur í afmælisgjöf. Ágústa stjórnaði uppistandshóp. Og Vilhjálmur Hjálmarsson var veislustjóri m.m.

Í okt. voru svo tvö kaffileikhúskvöld. Í vetur var keypt nýtt tölvuljósaborð, bætt við ljósabúnað og keyptur tónmöskvi undir dyggri stjórn Vilhjálms. Einar Andrésson sá um að endurnýja hljóðkerfið og gaf okkur það að hluta til.

Þá tóku við æfingar á Gaukshreiðrinu , eftir Dale Wasserman í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar. Það var frumsýnt 9. feb. s.l. og sýndar voru 11 sýningar í Halanum. Gaukshreiðrið var svo valið af Þjóðleikhúsinu, sem Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2007 – 2008 og sýndum við „Gaukshreiðrið“ á Stóra sviði Þjóðleikhússins 4. júní s.l..

Þrátt fyrir þessi miklu umsvif síðustu mánuði, erum við ekki af baki dottin og nú erum við búin að auglýsa eftir leikstjóra fyrir næsta leikár. Meðan það er að skýrast, ætlum við að safna kröftum og hafa einn Haladag í Krika 19. júlí n.k.

Breyting á innheimtu árgjalda:

Á aðalfundi Halaleikhópsins 24. maí sl. var samþykkt að hækka árgjaldið í 1800 kr. og senda út greiðsluseðla 1. ágúst nk. Ákveðið var jafnframt að veita 300 kr. afslátt, til þeirra sem greiða fyrir þann tíma. Sem sagt, ef þú greiðir með því að millifæra fyrir 1. ágúst, er árgjaldið 1500 kr. Reiknisnúmer okkar er 1175- 26 – 9976 og kennitalan 421192-2279. Vinsamlega setjið ykkar kennitölu án bandstriks í skýringareitinn.

 
 

Haladagur í Krika

Haladagur verður laugardaginn 26. júlí í Krika við Elliðavatn frá kl. 14.00 og fram eftir nóttu, ef svo ber undir. Engin formleg dagskrá er komin ennþá, en allar tillögur vel þegnar. Undanfarin ár hafa Halafélagar komið saman og dundað sér við leiki og leiklestur. Síðan hefur verið grillað, hver og einn kemur með á grillið og við hjálpumst að við að gera það sem þarf.

Ef þú hefur einhver skemmtiatriði eru þau velkomin. Endilega fjölmennið og leyfið leiknum að sleppa lausum hala. Kriki er sumarhús, sem Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu á og stendur við Elliðavatn. Það stendur við Elliðahvammsveg. Á www.kriki.bloggar.is má sjá nánari leiðarlýsingu og ýmislegt um Krika.

 

 
25. maí 2008

Uppreisn gegn kerfinu

 

Sýning Halaleikhópsins, Gaukshreiðrið, í leikgerð Dale Wasserman á skáldsögu Ken Kesey, í þýðingu Sonju B. Jónsdóttur var valin athyglisverðasta áhugasýning leikársins sem brátt er á enda. Að venju verður sýningin sem fyrir valinu varð sett upp í Þjóðleikhúsinu en Gaukshreiðrið verður sýnt á Stóra sviðinu miðvikudaginn 4. júní nk. Leikstjóri sýningarinnar er Guðjón Sigvaldason.

Markmið Halaleikhópsins er að „iðka leiklist fyrir alla“. Hópurinn hefur sett upp sýningar ár hvert sem margar hverjar hafa vakið mikla athygli. Hjá Halaleikhópurnum er fengist við leiklist á forsendum hvers og eins. Um leið hefur hópurinn opnað augu almennings fyrir því að fatlað fólk getur einnig, þrátt fyrir ýmsar hindranir, leikið á sviði eins og allir aðrir. Þar með hefur hópurinn á sinn hátt, eytt fordómum í garð fatlaðra. Fötlun er eitthvað sem gleymist í þessu áhugaleikfélagi.

Gaukshreiðrið fjallar um eðli geðveikrahæla, stöðu sjúklinga og hvað felst raunverulega í því að vera geðveikur. Þetta er ógnvekjandi, grátbroslegt en um leið sprenghlægilegt verk sem notið hefur gífurlegra vinsælda um árabil. Verkið endurspeglar uppreisnaranda sem ríkjandi var í hinum vestræna heimi á seinni hluta sjöunda áratug síðustu aldar. Vistmanni á geðsjúkrahúsi misbýður harðstjórn og miskunnarleysi á stofnuninni og ákveður að gera uppreisn. Kerfið bregst ókvæða við og allt er gert til að brjóta uppreisnina á bak aftur, hún fær óvæntan og óhugnanlegan endi og verður upphafsmanni hennar dýrkeypt.

Í umsögn dómnefndarinnar kom fram að verkefnaval leikhópsins beri vott um mikinn metnað, kjark og stórhug: ,,Leikhópurinn, sem hefur það að markmiði að ,,iðka leiklist fyrir alla” fagnaði fimmtán ára afmæli sínu á þessu leikári. Rétt eins og Halaleikhópurinn hefur auðgað leiklistarflóru áhugaleikfélaga og leiklistar í landinu almennt, öðlast hið þekkta leikrit Gaukshreiðrið nýjar víddir í meðförum leikhópsins. Fötlun leikenda stendur engan veginn í vegi fyrir túlkun á verkinu, heldur þvert á móti auðgar hana og styrkir. Styrkur sýningarinnar felst þannig ekki síst í sterkri liðsheild, þar sem hver einstaklingur fær að njóta sín á eigin forsendum, þó hlutverkin séu vissulega mismunandi stór. Framsögn er til mikillar fyrirmyndar og sama má segja um hlustun og allan samleik. Langmest mæðir á þeim Gunnari Gunnarssyni (Gunsó) í hlutverki Randle P. Murphy og Sóleyju Björk Axelsdóttur í hlutverki Ratchet hjúkrunarkonu. Bæði áttu þau góðan leik. Leikmynd, búningar, lýsing, hljóðmynd og förðun myndaði sterka heild og einstaklega sannfærandi umgjörð um sýninguna.”

 

Miðasala fer fram í Þjóðleikhúsinu og á midi.is

4. maí 2008
 

Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2007 - 2008

Þjóðleikhúsið  

Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram fimmtánda leikárið í röð. Dómnefnd Þjóðleikhússins í ár var skipuð Tinnu Gunnlaugsdóttur þjóðleikhússtjóa og Vigdísi Jakobsdóttur, deildarstjóra fræðsludeildar Þjóðleikhússins. Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að velja að þessu sinni:

Gaukshreiðrið
eftir Dale Wasserman
í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar
og meðförum Halaleikhópsins

 

Umsögn dómnefndar:
Verkefnaval Halaleikhópsins ber vott um mikinn metnað, kjark og stórhug. Leikhópurinn, sem hefur það að markmiði að „iðka leiklist fyrir alla“ fagnaði fimmtán ára afmæli sínu á þessu leikári. Rétt eins og Halaleikhópurinn hefur auðgað leiklistarflóru áhugaleikfélaga og leiklistar í landinu almennt, öðlast hið þekkta leikrit Gaukshreiðrið nýjar víddir í meðförum leikhópsins. Fötlun leikenda stendur engan veginn í vegi fyrir túlkun á verkinu, heldur þvert á móti auðgar hana og styrkir. Styrkur sýningarinnar felst þannig ekki síst í sterkri liðsheild, þar sem hver einstaklegur fær að njóta sín á eigin forsendum, þó hlutverkin séu vissulega mismunandi stór. Framsögn er til mikillar fyrirmyndar og sama má segja um hlutun og allan samleik.

Langmest mæðir á þeim Gunnari Gunnarssyni (Gunsó) í hlutverki Randle P. Murphy og Sóleyju Björk Axelsdóttur í hlutverki Ratchet hjúkrunarkonu. Bæði skiluðu þau hlutverkum sínum mjög vel. Leikmynd, búningar, lýsing, hljóðmynd og förðun myndaði sterka heild og einstaklega sannfærandi umgjörð um sýninguna.

 
Frétt af vef BÍL má sjá HÉR
Frétt af vef Þjóðleikhússins má sjá HÉR
 
 

Aðalfundur Halaleikhópsins


verður haldinn laugardaginn 24. maí 2008 kl. 14.00

í Halanum, Hátúni 12
 

Dagskrá fundar samkvæmt lögum félagsins:

  • Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  • Inntaka nýrra félaga.
  • Skýrsla formanns.
  • Afgreiddir endurskoðaðir reikningar félagsins.
  • Afgreiðsla tillagna sem borist hafa fundinum, svo sem lagabreytingar.
  • Starfsemi næsta leikárs.
  • Kosning stjórnar.
  • Árgjald ákveðið.
  • Önnur mál.
 

Núverandi stjórn er:

Formaður: Ásdís Úlfarsdóttir kosin til tveggja ára 2006, gefur ekki kost á sér áfram.
Varaformaður: María Jónsdóttir kosin til tveggja ára 2007, segir af sér.
Ritari: Ása Hildur Guðjónsdóttir kosin til tveggja ára 2006, gefur kost á sér áfram.
Gjaldkeri: Kristín R. Magnúsdóttir kosin til tveggja ára 2007, á eitt ár eftir.
Meðstjórnandi: Hanna Margrét Kristleifsd. Kosin til eins árs 2007, gefur ekki kost á sér áfram.

Varamaður 1: Guðríður Ólafsdóttir kosin til tveggja ára 2006, gefur kost á sér áfram.
Varamaður 2: Stefanía B. Björnsdóttir kosin til tveggja ára 2007, á eitt ár eftir.
Varamaður 3: Kristinn Guðjónsson kosinn til tveggja ára 2007, segir af sér.

Skoðunarmenn reikninga:
Grétar Pétur Geirsson og Ragnar Gunnar Þórhallsson báðir kosnir til tveggja ára 2007

Því er auglýst eftir framboðum í eftirfarandi embætti:
Formann til tveggja ára.
Varaformann til eins árs.
Ritara til tveggja ára. Ása Hildur gefur kost á sér áfram þar.
Meðstjórnanda til tveggja ára.
Varamann til tveggja ára. Guðríður gefur kost á sér áfram þar.
Varamann til eins árs.

Áhugasamir hafi samband við stjórn.

Skv. lögum félagsins geta allir félagsmenn gefið kost á sér í þessi embætti.

Vakin er athygli á 4. gr. laga félagsins, þar sem kveðið er á um að einungis skuldlausir félagar hafa kosningarétt á aðalfundum.

 
 
5. maí 2008

Halaleikhópurinn sendi tvo fulltrúa á aðalfund BÍL 

Afhending heiðursskjalsins 

Halaleikhópurinn sendi tvo fulltrúa á aðalfund BÍL sem var haldinn í Skagafirði 4. - 5. maí sl. Ásu Hildi Guðjónsdóttur og Stefaníu B. Björnsdóttur. Fundurinn var viðburðarríkur fyrir Halaleikhópinn þar sem á honum var tilkynnt um útslit í keppninni um athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2008. Við hrepptum tiltilinn í ár fyrir Gaukshreiðrið eftir Dale Wasserman í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar. Sjá nánar á forsíðunni.

Á myndinni hér til vinstri sést þegar Þjóðleikhússtjóri afhendir fulltrúum okkar viðurkenningarskjalið. Frá vinstri: Tinna Gunnlaugsdóttir, Ása Hildur Guðjónsdóttir, Stefanía B. Björnsdóttir og Gunnar Gunnarsson.

   
 

 

 
30. apríl 2008

Aðalfundur Halaleikhópsins

 
Verður haldinn laugardaginn 24. maí kl. 14.00, í Halanum, Hátúni 12.
 

Dagskrá fundar samkvæmt lögum félagsins:

  • Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  • Inntaka nýrra félaga.
  • Skýrsla formanns.
  • Afgreiddir endurskoðaðir reikningar félagsins.
  • Afgreiðsla tillagna sem borist hafa fundinum, svo sem lagabreytingar.
  • Starfsemi næsta leikárs.
  • Kosning stjórnar.
  • Árgjald ákveðið.
  • Önnur mál.

 

Núverandi stjórn er:

Formaður: Ásdís Úlfarsdóttir kosin til tveggja ára 2006, gefur ekki kost á sér áfram.
Varaformaður: María Jónsdóttir kosin til tveggja ára 2007, segir af sér.
Ritari: Ása Hildur Guðjónsdóttir kosin til tveggja ára 2006, gefur kost áfram.
Gjaldkeri: Kristín R. Magnúsdóttir kosin til tveggja ára 2007, á eitt ár eftir.
Meðstjórnandi: Hanna Margrét Kristleifsdóttir kosin til eins árs 2007, gefur ekki kost á sér áfram.

Varamaður 1: Guðríður Ólafsdóttir kosin til tveggja ára 2006, gefur kost á sér áfram. Varamaður 2: Stefanía B. Björnsdóttir kosin til tveggja ára 2007, á eitt ár eftir.
Varamaður 3: Kristinn Guðjónsson kosinn til tveggja ára 2007, segir af sér.

Skoðunarmenn reikninga:

Grétar Pétur Geirsson og Ragnar Gunnar Þórhallsson báðir kosnir til tveggja ára 2007

 
 

Því er auglýst eftir framboðum í eftirfarandi embætti:

Formann til tveggja ára.
Varaformann til eins árs.
Ritara til tveggja ára. Ása Hildur gefur kost á sér áfram þar.
Meðstjórnanda til tveggja ára.
Varamann til tveggja ára. Guðríður gefur kost á sér áfram þar.
Varamenn til eins árs.

Skv. lögum félagsins geta allir félagsmenn gefið kost á sér í þessi embætti.
Sjá Lög félagsins

Kosningarétt á aðalfundi hafa einungis skuldlausir félagsmenn. Sjá 4. gr..

Ein lagabreytingartillaga liggur fyrir, hana má sjá HÉR

 
Nýir félagar velkomnir

 

1. apríl 2008

Stuttmyndagerð

 

SkopmyndHópur Halafélaga hefur áhuga á að fara í stuttmyndagerð. Við viljum kanna hvort það eru ekki fleiri sem vilja taka þátt.

Allar hugmyndir eru opnar og möguleikarnir endalausir. Nú er bara að virkja sköpunarkraftinn.

Áhugasamir um verkefnið eru boðaðir til skrafs og ráðagerða í Halann, fimmtudaginn 3. apríl nk. kl. 20.00.

Allir sem áhuga hafa á stuttmyndagerð eru velkomnir.

Arnar, Árni og Stefanía.

 

27. mars 2008

Alþjóðlegi leiklistardagurinn

Frá árinu 1962 hefur Alþjóða leiklistardagurinn verið haldinn hátíðlegur um allan heim. Þá hefur heimskunnur leikhúslistamaður verið fenginn til að semja ávarp í tilefni dagsins af Alþjóða leiklistarstofnuninni, ITI, sem hefur aðsetur í Unesco-byggingunni í París. Að þessu sinni er það kanadíski leikhúsfrömuðurinn, leikstjórinn og leikarinn Robert Lepage sem semur alþjóðaávarpið í tilefni dagsins.

Lesa ávarp Roberts Lepage

 


Robert Lepage

Íslandsdeild ITI, Leiklistarsamband Íslands, hefur ávalt fengið íslenskan leikhúslistamann til að semja sérstakt ávarp í tilefni Alþjóða leiklistardagsins. Hefur sú hefð skapast að það hafi verið flutt af höfundi í útvarpi þann dag, sem og af stóra sviði Þjóðleikhússins fyrir sýningu. Þá hafa leikhúslistamenn um allt land stigið fram fyrir tjald leikhúsa sinna og flutt ávarpið íslenska þetta kvöld.

Ávarpið semur að þessu sinni leikarinn og leikstjórinn Benedikt Erlingsson.

Lesa ávarp Benedikts

 
Benedikt Erlingsson

 

 
 
 
22. feb. 2008

 Gaukshreiðrið

 

Gaukshreiðrið
 
eftir Dale Wasserman, byggt á skáldsögu Ken Kesey (1962),
í þýðingu Sonju B. Jónsdóttur og leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar.
Frumsýnt 9. feb. 2008.
 
Sýningum er lokið, sýndar voru 11 sýningar.
 

Umsagnir áhorfenda:

“Þar þótti mér takast einkar vel til, leiktilþrif með ágætum, framsögn öll jafn góð, leikið af lífi og sál, hin ýmsu tilbrigði sjúkdómsins dregin í dagsljós fram” Helgi Seljan. Velvakandi, Morgunblaðinu 27. feb. 2008

Þið toppið ykkur alltaf á hverju ári" Halldóra Malin Pétursdóttir

 
Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir: Upplifun
 
Aðalbjörg Gunnarsdóttir: „Mér finnst þetta frábært verk og vel leikið, leikmyndin æðisleg og bara allt svo metnaðarfullt!“ Meira hér
 
 
 
28. feb. 2008
 

Fréttatilkynning:

 

Í febrúar hefur Halaleikhópurinn sýnt leikritið Gaukshreiðrið „One Flew Over the Cuckoo's Nest“ eftir Dale Wasserman, byggt á skáldsögu Ken Kesey, í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar.

Leikritið endurspeglar þann uppreisnaranda sem ríkti í vestrænum heimi á seinni helmingi sjöunda áratugar síðustu aldar. Það fjallar um eðli geðveikrahæla, stöðu sjúklinganna innan þeirra eins og litið var á geðsjúkdóma um og upp úr miðri síðustu öld. Gaukshreiðrið er í senn ógnvekjandi, grátbroslegt og sprenghlægilegt og þetta samspil er fyrst og fremst ástæðan fyrir hinum miklu vinsældum þessa heimsfræga verks.

Umsagnir áhorfenda:

„ Þið toppið ykkur alltaf á hverju ári" Halldóra Malin Pétursdóttir

„Mér finnst þetta frábært verk og vel leikið, leikmyndin æðisleg og bara allt svo metnaðarfullt!“ Aðalbjörg Gunnarsdóttir.

„Ég skemmti mér konunglega, sveiflaðist á milli þess að hlægja og vera við það að klökkna á stundum“ Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir.

“Þar þótti mér takast einkar vel til, leiktilþrif með ágætum, framsögn öll jafn góð, leikið af lífi og sál, hin ýmsu tilbrigði sjúkdómsins dregin í dagsljós fram” Helgi Seljan.

Nú fer sýningum fækkandi á þessu þekkta verki, en leita má frekari upplýsinga www.halaleikhopurinn.is

 
29. janúar 2008
 
Leikarar í Gaukshreiðrinu

 

Fréttatilkynning

 

Þann 9. febrúar nk. mun Halaleikhópurinn frumsýna Gaukshreiðrið "One Flew
Over the Cuckoo's Nest" eftir Dale Wasserman, byggt á skáldsögu Ken Kesey, í
þýðingu Sonju B. Jónsdóttur. Leikstjóri verksins er Guðjón Sigvaldason.

Leikritið endurspeglar þann uppreisnaranda sem ríkti í vestrænum heimi á seinni helmingi sjöunda áratugar síðustu aldar. Það fjallar um eðli geðveikrahæla, stöðu sjúklinganna innan þeirra eins og litið var á geðsjúkdóma um og upp úr miðri síðustu öld.

Gaukshreiðrið er í senn ógnvekjandi, grátbroslegt og sprenghlægilegt og þetta samspil er fyrst og fremst ástæðan fyrir hinum miklu vinsældum þessa heimsfræga verks.
Halaleikhópurinn er áhugaleikhópur fyrir alla, fatlaða sem ófatlaða og hefur að markmiði að "iðka leiklist fyrir alla".

Sýnt verður í Halanum, Hátúni 12 (Sjálfsbjargarhúsinu). Miðapantanir verða á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og í síma 552-9188.
Nánari upplýsingar um Gaukshreiðrið er að finna HÉR

 
21. janúar 2008

Æfingar og leikmyndasmíði o.fl. o.fl.

 

Óhætt er að segja að mikið gangi á hjá okkur þessa dagana. Áætluð frumsýning á Gaukshreiðrinu er 9. febrúar svo nú er spítt í lófana og unnið dag og nótt við að smíða leikmynd, mála, leita að búningum og leikmunum. Nú og svo er æft flesta daga vikunnar og allt gengur samkvæmt áætlun. Enn vantar okkur hitt og þetta og þiggjum hjálp við að útvega þá muni og fatnað sem vantar. Hér til hægri er tengill á lista yfir það, hann er uppfærður reglulega, ef þið getið aðstoðað við að útvega eitthvað af þessu þá hafið samband við Ásu Hildi í síma 692-3630 eða sendið okkur tölvupóst.
     
  Æfing í fullum gangi
Hér er Gunnsó að sjóða saman hlið   Æfing í fullum gangi
Tóbías, Elísa og Daníel í smá pásu   Póló og Bjarni ætla að bora í loftið
Tóbías, Elísa og Daníel í smá pásu   Póló og Bjarni ætla að bora í loftið
Mikið er þrifið á sjúkrahúsinu   Ása Hildur gramsar í búningageymslunni
Mikið er þrifið á sjúkrahúsinu   Ása Hildur gramsar í búningageymslunni
Maggi ljósamaður smíðar hillu undir græjurnar   Svei mér þá held hann hafi fengið raflost
Maggi ljósamaður smíðar hillu undir græjurnar   Svei mér þá held hann hafi fengið raflost
Leikarar taka nótur eftir æfingu og Villi ljósálfur vill vera með á myndinni   Sjúklingaráðsfundur
Leikarar taka nótur eftir æfingu og Villi ljósálfur vill vera með á myndinni   Sjúklingaráðsfundur
Sóley og Arnar í góðum gír   Og indjáninn á kústinum
Sóley og Arnar í góðum gír   Og indjáninn á kústinum
Kiddi er ansi lunkinn á ryksugunni   Kiddi og Elísa mála á fullu
Kiddi er ansi lunkinn á ryksugunni   Kiddi og Elísa mála á fullu

 

10. janúar 2008

Líf og fjör hjá Halaleikhópnum

 

Æfingar á Gaukshreiðrinu eru komnar á fullt aftur eftir jólafrí. Mikið gengur á niður í leikhúsinu okkar. Æft er stíft flesta daga vikunnar, þess á milli eru smiðir, málarar og tæknimenn á fullu. Allt gengur þetta ljómandi vel og mikill hugur í hópnum. Enn vantar okkur þó manneskju sem getur haft yfirumsjón með búningunum okkar í Gaukshreiðrinu og tæknimann sem mun vinna með ljósamanni.

Hér til hægri er listi yfir allskyns leikmuni sem okkur vantar og gott ef þið gætuð kíkt á hann og athugað hvort þið getið aðstoðað okkur við að útvega þá muni. Ef svo er hafið samband við aðstoðarleikstjórann Ásu Hildi í GSM 692-3630 eða á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

Stefnt er að frumsýningu í byrjun febrúar. Og verður auglýst nánar hér þegar nær líður. Hjólastólasveitin okkar þ.e. uppistandararnir verða með sýningu einnig í byrjun febrúar í tengslum við List án landamæra. Nánar auglýst síðar.

Myndir af æfingaferlinu koma hér inn á næstu dögum

 

jolGleðileg jól og farsælt komandi ár.

Þökkum samstarfið á árinu.