Maður í mislitum sokkum frumsýnt 2. febrúar nk.

Halaleikhópurinn réð í sumar Þröst Guðbjartsson til að leikstýra Maður í mislitum sokkum eftir Arnmund S. Backman. Æfingar hafa gengið ljómandi vel og áætlað er að frumsýna 2. febrúar nk.

 Leikarar og leikstjóri

Maður í mislitum sokkum fjallar um ekkju sem býr í eldriborgara blokk. Dag einn er hún kemur út úr Bónus situr ókunnur maður í farþegasætinu i bílnum hennar. Maðurinn veit ekki hvað hann heitir, hvar hann býr eða hvert hann er að fara en hann er í mislitum sokkum. Af ótta við almenningsálitið ákveður ekkjan að taka hann með sér heim. Vinkonur hennar og eiginmenn þeirra fléttast inn í málið með tilheyrandi vandræðagangi. Úr þessu tvinnast síðan kostuleg og bráðskemmtileg atburðarás með litríkum karakterum, sýning stútfull af orku og leikgleði.

Þetta stykki á erindi til allra, atburðir sem gerast í þjóðfélaginu er fólk eldist eru hér settir upp á skondinn og hnitmiðaðan hátt. Þarna er vel hægt að hlæja og gráta.