„Þetta er fjörleg uppfærsla á skemmtilegu og umhugsunarverðu leikriti og Halaleikhópurinn leysir sitt verk af hendi með glæsibrag“ eru lokaorðin í umfjöllun um uppsetningu Halaleikhópsins á Ástandinu, sögur kvenna frá hernámsárnunum.
Föst stærð í menningarlífi Reykjavíkur
„Halaleikhópurinn er löngu orðin föst stærð í menningarlífi Reykjavíkur og sá sem ekki fer á sýningar hans er ekki að fylgjast með. Í ár sýnir hópurinn Ástandið eftir Brynhildi Olgeirsdóttur og Sigrúnu Valbergsdóttur undir öruggri leikstjórn Sigrúnar. Verkið byggir á frásögnum fjögurra kvenna af ástandsárunum svokölluðu, þ.e. heimsstyrjaldarárunum 1940-1944 þegar breskt og síðar bandarískt hernámslið var í landinu. Það er því sannsögulegt og bregður ljósi á lífið í Reykjavík á þessum umbrotatímum. Leikritið var fyrst skrifað fyrir Snúð og Snældu og sýnt 1997. Það var einnig á fjölunum 2005 og er nú sett upp í þriðja sinn. Þar með er þetta orðið klassískt verk. Þegar það var samið var það hluti af feminísku uppgjöri við þetta tímabil, ástandsárin. Uppgjöri við fordæmingu og skömm sem fylgdi mörgum þeirra kvenna sem höfðu átt vingott við erlenda hermenn. Sambærilegt uppgjör er enn í gangi og boðskapur leikritsins á því fullt erindi við samtímann.“
Vel skrifaður texti með sönnum kjarna
„Form leiksins er skýrt og einfalt, fjórar gamlar vinkonur koma saman á bar sem gamall kunningi þeirra rekur. Þær fá sér í glas og fara svo að rifja upp minningar sínar og reynslu frá ástandsárunum. Verkið er ágætlega byggt upp því konurnar hafa ólíkan bakgrunn og ólík viðhorf að öðru leyti en því að þeim þóttu íslenskir karlmenn ótrúlega hallærislegir en dátarnir rosalega sætir, teinréttir og ilmandi. Fyrst heyrum við sögu sveitastúlku sem flytur ung til borgarinnar með afa sínum og ömmu og fellur fyrir hermanni. Næst kemur saga trúaðrar og saklausrar stúlku sem verður líka ástfangin þvert á eigin vilja og annarra, en vegir Drottins eru órannsakanlegir. Þriðja frásögnin er saga hinnar léttlyndu og vel vöxnu stúlku sem kynnist mörgum mönnum en lendir í erfiðum málum. Síðast er saga þeirrar fjórðu sem dettur í lukkupottinn og giftist ríkum offísera og flytur til Ameríku fyrir lífstíð. Sögurnar eru allar sorglegar, hver á sinn hátt, en frásagnirnar eru brotnar upp með alskyns leikrænum innskotum og uppákomum sem létta verkið og hleypa í það krafti og fjöri. Þar koma fleiri persónur við sögu, leikararnir bregða sér í ýmis gervi þegar sýnd eru dæmi um samskipti stúlknanna við fjölskyldur sínar og samborgara og fordómafull viðhorf samfélagsins. Við fáum ekki að sjá hina glæstu erlendu ástmenn en þeir verða samt ljóslifandi í frásögnum kvennanna þar sem ástin og sorgin, vegast á. Þetta er vel skrifaður texti og það eykur á áhrifamátt hans vita að sögurnar eiga sér sannan kjarna.“
Góðir leikarar, söngur og dans
„Það hafa löngum verið góðir leikarar í Halaleikhópnum og þannig er það enn. Ástandsstúlkurnar fjórar eru leiknar af reyndum leikkonum og þeim bregst ekki bogalistin. En það eru fleiri persónur sem koma við sögu og hafa mismikið vægi. Bareigandinn hefur sitt að segja, ekki síst í endinn þegar hann verður óvænt miðdepill athyglinnar, síðan eru þarna skuggalegir ástandsnefndarmenn sem berjast gegn léttúð og siðspillingu, fagurlimaðir hermenn, fínir borgarar, uppgjafa bændur, fyllibytta og sveitastúlka að vestan sem er bæði heimóttarleg og hrædd við erlenda dáta. Öllum þessum persónum eru gerð skil með góðum leik og skemmtilegum tilþrifum. Ekki má gleyma tónlistinni, það er bæði söngur og dans í þessari sýningu. Hljómsveitin er óvenjuleg því í henni eru einn nikkari og þrír söngvarar. Að auki er tónlist af diskum en ég hefði raunar viljað að hljómsveitin hefði séð um allan tónflutninginn.“
Lesið alla umfjöllun Árna Hjartarsonar á Leiklistarvefnum: Ástandið, sögur kvenna frá hernámsárunum.