Samlestur - Barið í brestina

Eins og komið hefur fram þá réðum við í vor Gunnar Björn Guðmundsson til að leikstýra okkur í vetur. Undanfarna daga höfum við í stjórn ásamt Gunnari Birni lesið yfir fjöldann allan af leikritum með það í huga að setja upp í vetur. Núna er Barið í brestina gamanleikrit með söngvum eftir Guðmund Ólafsson efst á listanum. Því ætlum við að efna til samlesturs á mánudaginn 11. nóv. kl. 18.30. Í Halanum.

Allir eru velkomnir og þeir sem geta mæti með spjaldtölvu eða fartölvu svo við þurfum ekki að ljósrita eins mörg eintök, þar sem ljósritunarvélarnar okkar eru í lamasessi sem stendur.

Leikritið gerist á sambyggðri heilsugæslustöð og elliheimili á einum degi, segir frá lífi fólksins sem þar býr og starfar og hvernig það leysir vandamál sem upp koma eins og til dæmis óvænta heimsókn heilbrigðisráðherrans til að skoða magaspeglunartæki sem hún (ráðherrann er kvenmaður) útvegaði sérstaklega fjárveitingu til kaupanna á. Bæjarstjórinn notaði hins vegar peningana til þess að efla knattspyrnulið staðarins og keypti færeyskan leikmann. Honum er svo lýst að hann sé jafn breiður og hann er langur. Sennilega ferhyrningur. Það er því ekkert tæki til að sýna ráðherranum og tæpast hægt að hampa Færeyingnum í þess stað. Önnur smávægileg vafaatriði í rekstri heilsugæslunnar eru að eini læknirinn sem fékkst er rússnesk flóttakona af kyrrsettum togara, kokkurinn er sídrukkinn sóði sem reynir allar leiðir til að verða sér úti um ódýrt hráefni og má þá einu gilda hvort það er ætt eða óætt. Hann drýgir svo tekjurnar með því að leigja vistmönnum ellideildarinnar klámspólur að danskri fyrirmynd.

Í leikritinu eru 14 leikarar 8 konur og 6 karlar.

Eftir samlesturinn tökum við endanlega ákvörðun.