Obbosí, eldgos! Samlestur og leikstjóri ráðinn

Halaleikhópurinn hefur ráðið Sigrúnu Valbergsdóttir til að endurskrifa leikrit sitt og leikstýra okkur í vetur. Verkið sem hefur fengið nafnið Obbosí, eldgos! Er bráðskemmtilegur farsi sem gerist á heimili ferðaþjónustubónda. Ýmsar skemmtilegar persónur koma við sögu og eins og í öllum góðum försum er alls kyns misskilningur í gangi sem leiðir leikritið í allar áttir.

Persónugalleríið er fjölbreytt. Heimasæta, línudansari, spákona, draumráðningarkona, leikfimikennari, árunuddari, sjáandi, fótanuddari, grasafræðingur, dýralæknir og starfsfólk almannavarna.  Mikið glens og gaman.

Fyrsti samlestur verður fimmtudaginn 14. okt. kl. 17 – 21 í Halanum, Hátúni 12. Allir eru velkomnir. Okkur vantar bæði leikara og fólk bak við tjöldin. Leikmyndasmið, tæknifólk, fólk í búningadeild og förðun svo fátt eitt sé talið upp. Mörg eru störfin og allir geta eitthvað þannig að ef þú eða einhver sem þú þekkir hafið áhuga, þá verið velkomin

Æft verður í nóvember á mánud. og fimmtud. kl. 17 – 21 og á laugard. kl. 11 – 15. Svo tökum við okkur frí í des og höldum áfram í janúar þá bætast við æfingar á þriðjudögum. Verkið verður bútað niður þannig að leikarar þurfa ekki að mæta á allar æfingar..

Halaleikhópurinn bíður velkomna á samlesturinn nýja sem gamla félaga og endilega takið með ykkur gesti.

Halinn er í Sjálfsbjargarhúsinu Hátúni 12 gengið er inn að norðanverðu um dyr merktar 2 þar sem stendur Sundlaug og dagvist fyrir ofan dyrnar.

Kveðja stjórnin