Í Reykjavík finnst demantur. Það er áhugaleikhópur sem heitir Halaleikhópurinn. Þar er beðið eftir þér til að taka þátt, með hópi fólks, til að útvíkka sjóndeildarhringinn. Í þessum nútíma heimi þar sem símar, tölvur og samfélagsmiðlar ráða ríkjum, með allskonar skoðanir er gott að koma saman með fólki sem er á staðnum og hægt er að hafa mannleg samskipti við. Leiklist fær okkur til að upplifa og finna ný sjónarhorn sem við höfum ekki hugsað um áður. Leiklist fær okkur til að muna að við erum ekki ein og að við getum unnið saman að því að skapa eitthvað skemmtilegt. Leiklist er opin og áhrifarík að því leiti að hún getur hýst flest allar tegundir listgreina og jafnvel margar iðngreinar. Hefur þú gott vald á eða bara áhuga fyrir að leika, syngja, dansa, spila tónlist, sauma, farða, smíða, taka myndir og fleira eða kannski bara almennan leiklistaráhuga? Þá þurfum við á þér að halda!
Halaleikhópurinn er áhugaleikfélag sem stofnað var 27. september 1992 og iðkar leiklist fyrir alla. Félagið er rekið af félagsfólkinu sjálfu sem gengur í öll verk og hefur engan launaðan starfsmann. Árlega er sett upp vegleg leiksýning og er þá ráðinn faglegur leikstjóri til verksins. Einnig eru haldnar stuttverkasýningar sem við stýrum sjálf og ýmsar skemmtanir fyrir félagsfólk og gesti þeirra. Félagar koma úr ýmsum áttum og hafa hæfileika hver á sínu sviði sem kemur sér vel í þeim fjölbreyttu verkefnum sem leysa þarf áður en ljósin kvikna á sviðinu. Leiklist fær okkur til að upplifa og finna ný sjónarhorn sem við höfum ekki hugsað um áður. Við ætlum að halda félagsfund í litla sæta leikhúsinu okkar Hátúni 12, 26. September næstkomandi klukkan 19:30.
Mikið væri gaman að sjá þig og vini þína. Komdu og vertu með!
Facebook viðburður: Þér er boðið að taka þátt í ævintýri!