Halaleikhópurinn frumsýnir 29 janúar, leikritið Stræti eftir Jim Cartwright í leiksjórn og leikgerð Guðjóns Sigvaldasonar. Stræti er átakasaga með kómísku ívafi og fjallar um fólk sem býr við sömu götu. Aðstæður þeirra markast af efnislegri óvissu, firringu og brotnum samskiptum. Þar eiga allir sína drauma sem halda mörgum á floti þegar viljinn dugar ekki í erfiðum kringumstæðum. Samskiptin eru oft hrjúf og óvægin með óþvegnu og grófu orðfari sem er ekki fyrir viðkvæma. Áhorfandinn fylgist með fólki gera sig klárt til að skreppa á pöbbinn, skemmta sér þar misvel og halda síðan aftur heim til sín eða annarra þar sem ýmislegt getur gerst.
Stræti varð til í spunavinnu bresks leikhóps og var fyrst sýnt í Royal Court leikhúsinu í London 1982. Það þykir gefa óvenjugóða innsýn í persónuflóru verksins og hefur unnið til fjölda verðlauna í gegnum árin. Nánari upplýsingar eru hér: Stræti
Halaleikhópurinn sýndi fyrr í vetur sjálfstæðan hluta verksins, Söguna af Joey og Clark, sem fjallar um ást samkynhneigðra, ungra manna og leit þeirra að lausn í hverfulum heimi og örlög þeirra. Nánar um þá leiksýningu: Sagan af Joey og Clark