Eftir Tom Griffin í þýðingu Odds Bjarna Þorkelssonar
Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson
Frumsýnt 25. jan. 2014

Verkið fjallar um 4 menn sem eru misjafnlega staddir í andlegum þroska og búa saman í íbúð. Þeir sjá um sig að nokkru leyti sjálfir, en umsjónarmaðurinn Þór lítur til með þeim og sér um að allt gangi vel. Við fáum að fylgjast með þeim tækla hið daglega líf, sem getur reynst ansi snúið og niðurstaðan æði oft sprenghlægileg eða grátbrosleg. Rottuveiðar, partíhald og ástamál koma við sögu – og auðvitað er ekki hjá því komist að hið opinbera blandist í málin, þar sem að fatlaðir einstaklingar eiga aðild að málum.

Nánar ...

Rympa á ruslahaugnum eftir Herdísi Egilsdóttur
Leikstjóri er Herdís Ragna Þorgeirsdóttir
Frumsýnt 10. febrúar 2013

Leikritið fjallar um Rympu sem lifir og býr á Ruslahaugnum. Hún er frekar ófyrirleitin og hagar lífi sínu ekki alltaf eftir lögum og reglu. Undir harðsoðnu yfirborðinu býr reynsla frá æsku. Hún er svolítið einmana með tuskukarlinum sínum og því er það mjög kærkomið þegar hún fær heimsókn tveggja afskiptra barna. Tekur hún þau í sína umsjá og kennir þeim ljótar listir. Inn í söguna koma leitarkona, möppudýr. kerfiskarl sem vill helst geyma börn og gamalmenni í búrum og gömul amma sem er yfirgefin og gleymd á elliheimili. En allt fer vel að lokum.

Nánar ...

Góðverkin kalla!
Eftir Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason.
Leikstjórar Oddur Bjarni Þorkelsson og Margrét Sverrisdóttir
Frumsýnt 4. feb. 2011

Góðverkin kalla! er gamanleikrit sem gerist á Gjaldeyri við Ystunöf þar sem lífið snýst um góðverk. Allir sem ekki hafa tapað glórunni, lifa fyrir starfsemi góðgerðafélaga sem eru mörg á Gjaldeyri við Ystunöf. Segja má frá því að ný hjúkrunarkona kemur til bæjarins, og er tekið opnum örmum af ýmsum íbúum sveitarfélagsins. Sjúkrahúsið á afmæli og það þarf að finna veglega gjöf handa því, a.m.k. veglegri en það sem hin félögin gefa.

Nánar ...

Leikgerð og leikstjórar: Margrét Sverrisdóttir og
Oddur Bjarni Þorkelsson, byggt á þýðingu Stefáns Baldurssonar
Frumsýnt 10. febrúar 2012

Hér er um að ræða farsa. Lúðvík, ungur maður, kemur heim til pabba síns og ömmu og sér að þar er ýmislegt undarlegt á seyði. Upp hefst mikill misskilningur og flæktur flóki, eins og vera ber í heiðarlegum försum, þar sem allir kappkosta við að hylma yfir og ljúga sig út úr hinum undarlegustu aðstæðum. Sem er skiljanlegt þar sem um ýmis konar lögbrot er að ræða, og lögreglan er á staðnum!

Þessi leikgerð er unnin af Margréti Sverrisdóttur og Oddi Bjarna Þorkelssyni sem jafnframt leikstýra. Þau byggja hana á gömlu leikgerðinni, sem þýdd var af Stefáni Baldurssyni, en hafa tekið sér það leyfi að umskrifa senur, skipta um kyn á persónum og skrifa meira að segja inn eina til viðbótar. Allt í því augnamiði að hressa við gamalt verk.

Nánar ...

Sjöundá - Svartfugl Gunnars Gunnarssonar
Leikgerð Ágústa Skúladóttir, Þorgeir Tryggvason og leikhópurinn
Leikstjóri Ágústa Skúladóttir
Frumsýnt 5. feb. 2010

Í Svartfugli vindur í raun fram tveimur sögum. Ástarmál og sálarstríð Eyjólfs Kapelláns og svo atburðirnir á Sjöundá og réttarhöldin yfir Steinunni og Bjarna. Við vinnslu leikgerðarinnar voru fjögur atriði lögð til grundvallar. Í fyrsta lagi að einbeita sér að Sjöundármálinu, í öðru lagi að láta tvær stúlkur gegna hlutverki „sögumanna“ eða kannski öllu heldur „leiðsögumanna“ inn í atburðina. Það þriðja var að nota réttarhöldin sem umgjörð og láta vitnaleiðslurnar leiða atburðina í ljós. Og í fjórða lagi að nota sem mest af texta bókarinnar sjálfrar. Stíll hennar er mjög afgerandi, samtölin frábærlega safarík og hver persóna hefur sína skýru rödd. Í stað þess að víkja alveg frá málsniðinu eða þá að reyna að „stæla Gunnar“ var ákveðið að nýta þessa eiginleika bókarinnar til hins ítrasta.

Nánar ...