Batnandi maður eftir Ármann Guðmundsson í leikstjórn höfundar
Frumsýnt 24. feb. 2007

Batnandi maður fjallar á gráglettinn hátt um sjómanninn Sigmar sem fengið hefur nóg af sjómennsku og sér tækifæri þegar hann lendir í vinnuslysi til þess að láta úrskurða sig öryrkja og njóta þannig lífsins á kostnað skattborgaranna.

Hann sogast brátt inn í heim sem var honum að öllu ókunnugur, eignast nýja vini og óvini, lendir í útistöðum við kerfið og verður svo sannarlega reynslunni ríkari. En þegar upp er staðið er líf öryrkjans kannski ekki alveg eins ljúft og hann taldi í fyrstu. Hvernig getur hann orðið 0% öryrki aftur? Dugir eitthvað minna en kraftaverk?

Þetta er ýkjukennt raunsæisverk með kaldhæðnum ádeilubroddi, sem fjallar á ábyrgðarfullan og fordómalausan hátt, bæði um fordóma gagnvart öryrkjum og fordóma gagnvart þeim sem hafa fordóma gagnvart öryrkjum.

Nánar ...

Pókók eftir Jökul Jakobsson í leikstjórn Vilhjálms Hjálmarssonar
Frumsýnt 11. mars 2006
Pókók fjallar um mann sem er ný sloppinn af Litla Hrauni. Hann ætlar að setja á markað og græða stórkostlega á sælgæti, sem vinur hans og samfangi fann upp. En ekki er auðvelt að fylgja hinum gullna vegi til ríkidóms og ekki er sælgætið eins vænt og talið var í fyrstu. Inn í leikritið fléttast blekkingar, svik og brögð, fegurðardrottingar og óprúttnir þjófar. Leikritið er í 4 þáttum og er tímalaust. Það var samtímasaga þegar það var sett upp fyrst en gæti einnig gerst nú tæpum 50 árum seinna. Hvort þetta er skopleikur, farsi eða þjóðfélagsádeila látum við áhorfandann skera úr um....

Nánar ...

Fílamaðurinn eftir Bernard Pomerance
Leikstjóri Guðjón Sigvaldason
Frumsýnt 27. feb. 2004

„Fílamaðurinn“ fjallar um þekkta persónu, John Merrick, sem uppi var á Englandi í lok nítjándu aldar. Hann var svo afskræmdur af ákveðnum beinasjúkdómi að hann gekk undir nafninu Fílamaðurinn.

Leikhópurinn kýs í þessari uppfærslu sinni að snúa við gildunum, allir eru fatlaðir nema Fílamaðurinn, og fær áhorfandinn þannig aðra sýn á verkið en hefur verið í fyrri uppfærslum hérlendis.

John kemst undir læknishendur og fjallar leikritið að mestu um samskipti hans og læknis hans dr. Frederic Treves eftir komu hans á Lundúnaspítala. Á spítalanum dvaldi hann síðustu æviárin. Meðan á dvöl hans þar stóð varð hann þekktur meðal heldra fólksins í London, en áður hafði hann verið hafður til sýnis á ýmsum markaðssýningum.

Nánar ...

Kirsuberjagarðurinn
Gamanleikur í fjórum þáttum eftir Anton Pavlovitsj Tsjekhov
Leikstjóri: Guðjón Sigvaldason
Frumsýnt var 4. mars 2005

Kirsuberjagarðurinn er leikrit um fjölskyldu, sem er að missa ættaróðalið, vegna skulda.

Óðalsfrúin heldur sínu striki og lifir hátt, eyðir í ferðalög og alls kyns óþarfa. Heldur þjónustufólk, sem er duglegt að borða, þótt fæðið sé dýrt t.d. á veitingahúsum.

Kirsuberjatrén eru orðin gömul og berin þroskast seint og illa, sem kemur kannski ekki að sök, því enginn kaupir þau.

Allt húsið er í niðurníðslu, því engir peningar eru til að halda því við.

Nánar ...

Höfundur leikrits og söngtexta: Unnur María Sólmundardóttir
Frumsýnt 8. febrúar 2003

Á fjölum félagsins fjallar um fyrirlestur frú Þorgerðar Kvaran leikhússpekúlants um það hvernig ber að standa að (eða kannski öllu heldur hvernig ætti ekki að standa að) stofnun áhugaleikhópa. Hún rekur feril Félagsins, frá stofnfundi fyrstu félagsmannanna til stjórnarskiptanna í lok fyrsta starfsársins og styðst við myndskeið úr einkasafni sínu, en af eigin frumkvæði gerðist hún persónulegur verndari þessa hóps.

Þorgerður fjallar um sorgir og sigra félagsmanna, fjáraflanir, leikritaval, ráðningu leikstjóra, leikhúsrómantíkina og sex vikna æfingatímabilið sem einkennist af fyrirsjáanlegum uppákomum s.s. leikstjórakastið, áfalli í leikarahópnum o.fl. Þorgerður nýtur aðstoðar nemenda í salnum sem sjálfviljugir greiddu fyrir fyrirlesturinn auk þess sem hún, líkt og góðum fyrirlesara sæmir, kryddar lestur sinn með söng og öðrum uppákomum.

 

Nánar ...