Sjöundá - Svartfugl Gunnars Gunnarssonar
Leikgerð Ágústa Skúladóttir, Þorgeir Tryggvason og leikhópurinn
Leikstjóri Ágústa Skúladóttir
Frumsýnt 5. feb. 2010

Í Svartfugli vindur í raun fram tveimur sögum. Ástarmál og sálarstríð Eyjólfs Kapelláns og svo atburðirnir á Sjöundá og réttarhöldin yfir Steinunni og Bjarna. Við vinnslu leikgerðarinnar voru fjögur atriði lögð til grundvallar. Í fyrsta lagi að einbeita sér að Sjöundármálinu, í öðru lagi að láta tvær stúlkur gegna hlutverki „sögumanna“ eða kannski öllu heldur „leiðsögumanna“ inn í atburðina. Það þriðja var að nota réttarhöldin sem umgjörð og láta vitnaleiðslurnar leiða atburðina í ljós. Og í fjórða lagi að nota sem mest af texta bókarinnar sjálfrar. Stíll hennar er mjög afgerandi, samtölin frábærlega safarík og hver persóna hefur sína skýru rödd. Í stað þess að víkja alveg frá málsniðinu eða þá að reyna að „stæla Gunnar“ var ákveðið að nýta þessa eiginleika bókarinnar til hins ítrasta.

Nánar ...

Sjeikspírs Karnival eftir William Shakespeare í þýðingu Helga Hálfdánarsonar

Leikgerð og leikstjórn: Þröstur Guðbjartsson

Leikgerð Þrastar Guðbjartssonar er unnin upp úr þrem verkum Shakespeare: Þrettándakvöldi, Draumi á Jónsmessunótt og
Hinriki IV. Þetta er ærslafullur gamanleikur, sem gerist á einum degi í Illiríu á Karnivali hjá Orsínó greifa. Hann er dapur og því koma vinir hans og leika fyrir hann alls kyns gamanleiki, til að létta honum lífið.

Nánar ...

Batnandi maður eftir Ármann Guðmundsson í leikstjórn höfundar
Frumsýnt 24. feb. 2007

Batnandi maður fjallar á gráglettinn hátt um sjómanninn Sigmar sem fengið hefur nóg af sjómennsku og sér tækifæri þegar hann lendir í vinnuslysi til þess að láta úrskurða sig öryrkja og njóta þannig lífsins á kostnað skattborgaranna.

Hann sogast brátt inn í heim sem var honum að öllu ókunnugur, eignast nýja vini og óvini, lendir í útistöðum við kerfið og verður svo sannarlega reynslunni ríkari. En þegar upp er staðið er líf öryrkjans kannski ekki alveg eins ljúft og hann taldi í fyrstu. Hvernig getur hann orðið 0% öryrki aftur? Dugir eitthvað minna en kraftaverk?

Þetta er ýkjukennt raunsæisverk með kaldhæðnum ádeilubroddi, sem fjallar á ábyrgðarfullan og fordómalausan hátt, bæði um fordóma gagnvart öryrkjum og fordóma gagnvart þeim sem hafa fordóma gagnvart öryrkjum.

Nánar ...

One Flew Over the Cuckoo's Nest

Eftir Dale Wasserman
Leikstjóri Guðjón Sigvaldason.
Frumsýnt 9. feb. 2008.

Gaukshreiðrið endurspeglar á óviðjafnanlegan hátt þann uppreisnaranda sem ríkti í vestrænum heimi á seinni helmingi sjöunda áratugar síðustu aldar. Það gerist á ríkisreknu geðsjúkrahúsi þar sem einn vistmaður æsir sjúklinga á stofnuninni með sér í uppreisn gegn því sem hann telur vera miskunnarlaust harðstjórnarkerfi. Kerfið bregst ókvæða við og ekkert er látið ógert til að brjóta uppreisnina á bak aftur, hún fær vægast sagt óvæntan og óhugnanlegan endi og verður upphafsmanni hennar dýrkeypt.

Það fjallar um eðli geðveikrahæla, stöðu sjúklinganna innan þeirra og hvað felist raunverulega í geðveiki. Kannski á sumt við enn þann dag í dag. Í verkinu er velt upp spurningunni hvort raunveruleg andleg heilun fáist með því að húka inni á geðveikrahæli fjarri venjulegu lífi og láta kerfið ákveða hvað komi sjúklingunum best.

Gaukshreiðrið er í senn ógnvekjandi, grátbroslegt og sprenghlægilegt og þetta samspil er fyrst og fremst ástæðan fyrir hinum feikimiklu vinsældum þessa heimsfræga verks.

Nánar ...

Pókók eftir Jökul Jakobsson í leikstjórn Vilhjálms Hjálmarssonar
Frumsýnt 11. mars 2006
Pókók fjallar um mann sem er ný sloppinn af Litla Hrauni. Hann ætlar að setja á markað og græða stórkostlega á sælgæti, sem vinur hans og samfangi fann upp. En ekki er auðvelt að fylgja hinum gullna vegi til ríkidóms og ekki er sælgætið eins vænt og talið var í fyrstu. Inn í leikritið fléttast blekkingar, svik og brögð, fegurðardrottingar og óprúttnir þjófar. Leikritið er í 4 þáttum og er tímalaust. Það var samtímasaga þegar það var sett upp fyrst en gæti einnig gerst nú tæpum 50 árum seinna. Hvort þetta er skopleikur, farsi eða þjóðfélagsádeila látum við áhorfandann skera úr um....

Nánar ...