Sjöundá - Svartfugl Gunnars Gunnarssonar
Leikgerð Ágústa Skúladóttir, Þorgeir Tryggvason og leikhópurinn
Leikstjóri Ágústa Skúladóttir
Frumsýnt 5. feb. 2010
Í Svartfugli vindur í raun fram tveimur sögum. Ástarmál og sálarstríð Eyjólfs Kapelláns og svo atburðirnir á Sjöundá og réttarhöldin yfir Steinunni og Bjarna. Við vinnslu leikgerðarinnar voru fjögur atriði lögð til grundvallar. Í fyrsta lagi að einbeita sér að Sjöundármálinu, í öðru lagi að láta tvær stúlkur gegna hlutverki „sögumanna“ eða kannski öllu heldur „leiðsögumanna“ inn í atburðina. Það þriðja var að nota réttarhöldin sem umgjörð og láta vitnaleiðslurnar leiða atburðina í ljós. Og í fjórða lagi að nota sem mest af texta bókarinnar sjálfrar. Stíll hennar er mjög afgerandi, samtölin frábærlega safarík og hver persóna hefur sína skýru rödd. Í stað þess að víkja alveg frá málsniðinu eða þá að reyna að „stæla Gunnar“ var ákveðið að nýta þessa eiginleika bókarinnar til hins ítrasta.