Maður í mislitum sokkum eftir Arnmund S. Backman
Þröstur Guðbjartsson leikstýrir
Frumsýnt 2. febrúar 2018

Maður í mislitum sokkum fjallar um ekkju sem býr í eldriborgara blokk. Dag einn er hún kemur út úr Bónus situr ókunnur maður í farþegasætinu i bílnum hennar. Maðurinn veit ekki hvað hann heitir, hvar hann býr eða hvert hann er að fara en hann er í mislitum sokkum. Af ótta við almenningsálitið ákveður ekkjan að taka hann með sér heim. Vinkonur hennar og eiginmenn þeirra fléttast inn í málið með tilheyrandi vandræðagangi. Úr þessu tvinnast síðan kostuleg og bráðskemmtileg atburðarás með litríkum karakterum, sýning stútfull af orku og leikgleði.
Þetta stykki á erindi til allra, atburðir sem gerast í þjóðfélaginu er fólk eldist eru hér settir upp á skondinn og hnitmiðaðan hátt. Þarna er vel hægt að hlæja og gráta.

Nánar ...

Farið eftir Ingunni Láru Kristjánsdóttur
Leikgerð og leikstjórn Margret Guttormsdóttir
Frumsýnt 4. nóvember 2016

Halaleikhópurinn frumflytur nýtt, íslenskt leikverk, Farið, eftir Ingunni Láru Kristjánsdóttur. Verkið var sérstaklega samið fyrir leikhópinn í kjölfar samtals milli höfundar og félaga og byggir það á reynslu og skoðunum þeirra.
Farið er pólitískt leikrit sem gerist um borð í 100 hæða, steinsteyptu geimskipi á ferð um geiminn. Farþegar eiga þar í samskiptum við kerfið um borð og mæta örlögum sínum þegar þeir rekast í horn og passa ekki inn í réttu rammana. Áhorfendur mega búast við sótsvartri háðsádeilu á þá þrautagöngu sem margir notendur velferðarkerfisins upplifa.

 

Nánar ...

Stræti eftir Jim Cartwright
Leikstjóri: Guðjón Sigvaldason
Sýningin Sagan af Joey og Clark var frumsýnd 4. desember 2015

Í sögunni af Joey og Clark er litið inn á eitt heimilið við Strætið. Þetta er sjálfstætt verk úr strætinu sem ekki verður með í heildarverkinu sem við sýnum eftir áramót. Það er sýnt sem sjálfstætt stuttverk (ca 50 mín) . Sagan fjallar um ást samkynhneigðra, ungra manna, leit þeirra að lausn í hverfulum heimi og örlög þeirra á tímum kreppu og atvinnuleysis.

Orðfæri persónanna getur verið gróft og ekki fyrir viðkvæma.

Nánar ...

Stræti eftir Jim Cartwright
Leikstjórn og leikgerð: Guðjón Sigvaldason
Frumsýnt 29. janúar 2016

Stræti er átakasaga með kómísku ívafi og fjallar um fólk sem býr við sömu götu. Aðstæður þeirra markast af efnislegri óvissu, firringu og brotnum samskiptum. Þar eiga allir sína drauma sem halda mörgum á floti þegar viljinn dugar ekki í erfiðum kringumstæðum. Samskiptin eru oft hrjúf og óvægin með óþvegnu og grófu orðfari sem er ekki fyrir viðkvæma. Áhorfandinn fylgist með fólki gera sig klárt til að skreppa á pöbbinn, skemmta sér þar misvel og halda síðan aftur heim til sín eða annarra þar sem ýmislegt getur gerst.

 

Nánar ...

Stræti eftir Jim Cartwright
Leikstjóri: Guðjón Sigvaldason
Sýningin Innlit í Stræti var frumsýnd 4. nóvember 2015

Í Innlit í Stræti eru flutt „Eintöl“ þar sem við fáum nasaþef af persónuflóru verksins gegnum eintöl nokkurra íbúa strætisins.

Við hittum Skinnið sem er bulla með ofbeldisfulla fortíð en hefur nú snúist til dharma. Prófessorinn, misheppnaður rithöfundur, fjallar um bókina sem aldrei varð til. Þarna býr Valerie, einstæð móðir sem býr við kúgun og heimilisofbeldi og drýgir tekjurnar með betli. Þá birtist Mollý, dragdrottningarmóðir transgender heimsins og líf hennar í dag. Jerry, smámunasamur fyrrverandi hermaður sem dagaði uppi einhversstaðar kemur fram. Scullery er svo sögumaðurinn sem tengir alla þessa einstaklinga. Allt þetta fólk er að undirbúa sig til að fara á krána að skemmta sér.

Orðfæri persónanna getur verið gróft og ekki fyrir viðkvæma.

Nánar ...