Skýrsla stjórnar 2008 - 2009

Í stjórn eru: Ása Hildur Guðjónsdóttir formaður, Höskuldur Þ. Höskuldsson varaformaður, Kristín R. Magnúsdóttir gjaldkeri, Kristín M. Bjarnadóttir ritari og Stefanía Björk Björnsdóttir meðstjórnandi. Í varastjórn eru: Guðríður Ólafsdóttir, Einar Þ. Andrésson og Magnús Addi Ólafsson.

Óhætt er að segja að starfsárið hafi byrjað strax með miklum bravör. Við unnum keppnina um athyglisverðustu áhugaleiksýninguna leikárið 2007 – 2008 fyrir Gaukshreiðrið, eftir Dale Wasserman í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar í maí 2008. Því var það fyrsta verk stjórnar að semja um tilhögun, við að koma sýningunni í Þjóðleikhúsið, leikmyndin sem var talsvert umfangsmikil, hún var endurhönnuð og smíðuð uppá nýtt.

Þjóðleikhúsið kom til móts við allar okkar þarfir og gekk samstarfið mjög vel. Við sýndum fyrir nánast fullum sal þann 4. júní 2008 á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Þetta var mikið þrekvirki og margir innan Halaleikhópsins sem utan, lögðu okkur lið. Viljum við nota þetta tækifæri til að þakka öllum sem að þessu komu. Óhætt er að segja að það hafi verið stoltir leikarar og aðstandendur sýningarinnar og félagsmenn, þegar allur salurinn stóð upp og klappið ætlaði aldrei að hætta að sýningu lokinni. Við fengum talsverða fjölmiðlaumfjöllun vegna þessa.

Strax var farið að huga að næsta leikári og auglýst var eftir leikstjóra. Skemmst er frá því að segja að 8 leikstjórar sóttu um. Mikil vinna fór í að taka þá í viðtöl og velja rétta leikstjórann. Niðurstaðan varð að ráða Þröst Guðbjartsson leikstjóra, hann var með hugmynd um að setja á svið Karnival unnið upp úr Sjakespears verkum og var það samþykkt. Einnig að fá hann til að halda 20 tíma leiklistarnámskeið í okt. 2008. Þröstur tók sérstaklega fyrir upphitun, raddbeitingu, traustæfingar, framsögn og spuna. Námskeiðið sóttu 13 félagar og höfðu mikið gagn og gaman af.

Tveir vinnudagar voru á starfstímabilinu 23. ágúst 2008 og 24. maí 2009 þar sem við tókum til í búningageymslunni, og öllum skotum Halans.

Einn Haladagur var 19. júlí í Krika við Elliðavatn, þar sem m.a. voru leiklesið leikrit eftir tvo Halafélaga, grillað og ýmislegt annað gert sér til gamans.

Fimm meðlimir stjórnar fóru á haustfund BÍL og námskeið í stjórnum leikfélaga, 22. nóv. 2008; Ása Hildur Guðjónsdóttir, Kristín M. Bjarnadóttir, Einar Andrésson, Stefanía Björk Björnsdóttir og Guðríður Ólafsdóttir . Þar var skipulagsskrá Halaleikhópsins m.a. notuð sem kennslugagn og fékk leikhópurinn mikið hrós fyrir hana.

Æfingar á Sjeikspírs Karnivalinu í leikgerð og leikstjórn Þrastar Guðbjartssonar hófust í nóvember. Æft var í 4 vikur og svo tekið frí fram yfir áramót og frumsýnt 31. jan. sl. Sýningar urðu 12 talsins. Alls tóku 46 félagsmenn þátt í uppsetningunni á einn eða annan hátt þar af 19 leikarar.

Sýningin fékk góða gagnrýni. Þröstur gaf okkur vinnu við leikgerðina.

Halaleikhópurinn var valinn sem Handhafi Kærleikskúlunnar 2008 af Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Tilgangurinn með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna, með því að efla starfsemi Reykjadals. Gera þannig fleirum mögulegt að njóta þar ævintýra tilverunnar í hópi með jafnöldrum – eignast vini og dýrmætar minningar. Kærleikskúlan er úr gleri, blásin upp af því dýrmætasta sem hverri lifandi manneskju er gefið – andardrætti. Andinn í kúlunni er táknrænn fyrir hið ósnertanlega og andlega, langanir og þrár. Kúlan er kysst þremur kossum, sem fela í sér tjáningu ástar, vináttu og þakklætis.

Guðný Alda Einarsdóttir tók við henni við hátíðlega athöfn á Listasafni Reykjavíkur 26. nóv. 2008 ásamt hópi Halafélaga. Kærleikskúla hvers árs er afhent verðugri fyrirmynd eða fyrirmyndum og var góður rómur gerður að starfi Halaleikhópsins við athöfnina.

Halaleikhópurinn styrkti tvo félagsmenn til að sækja námskeið á Leiklistarskóla BÍL. Daníel Þórhallson til að fara á leiklistarnámskeið að Húsabakka og Magnús Adda Ólafsson til að fara á ljósa og tæknimannanámskeið.

Samþykkt var á Félagsfundi 11. sept. 2008 að ráða Ágústu Skúladóttur til að leikstýra okkur næsta leikár. Ákveðið var síðar, að taka fyrir Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson Ágústa ætlar að gera nýja leikgerð fyrir okkur án endurgjalds. Sýningarleyfið er komið og Gunnarsstofnun gefur eftir höfundalaunin.

Ljósaveisla. Magnús Addi ljósameistari hafði opið hús 28. mars sl. þar sem hann kynnti fyrir félögum möguleika ljósaborðsins og tæknibúnaðar Halaleikhópsins.

Ása Hildur fór sem fulltrúi Halaleikhópsins á aðalfund BÍL að Hlíð í Ölfusi um mánaðar mótin apríl- maí sl. Aðrir fulltrúar forfölluðust og ekki reyndist tími til að finna staðgengla.

Enn var unnið að því að bæta aðgengi í Halanum. Við létum mála anddyrið og litla ganginn. Létum gera nýtt salerni baksviðs og setja rafmagnsopnun á aðaldyrnar hjá okkur. Þá var gengið frá húslýsingunni og settir dimmerar í salinn. Fyrirhugað var að kaupa stækkun á nýja ljósaborðið, en því var frestað vegna óhagstæðs gengis.

Tvö formleg Halapartý vour haldin 11. okt. og jólapartý 12. des. Auk þess sem hefðbundið frumsýningarpartý var haldið og lokapartý með hefðbundnu sniði.

Við sendum út fréttabréfið Halafréttir 9 sinnum á starfstímabilinu, í júní, júlí, sept. okt. des. mars, apríl. og tvisvar í maí. Auk þess sem við vorum í sambandi við félagsmenn gegnum tölvupóst o.fl.

Töluverð vinna stjórnar fór í að reyna að afla styrkja og skipuðum við sérstaka styrkjanefnd sem í sátu: Kristín R. Magnúsdóttir, Kristín M. Bjarnadóttir og Ása Hildur Guðjónsdóttir. Róðurinn er ansi þungur núna í þessu árferði, því er mikilvægt að allir félagsmenn leggist á árarnar og hjálpi til eftir öllum tiltækum ráðum að afla fjár til að greiða leikstjóra og leggi á sig aukna sjálfboðavinnu, svo kostnaður við það sem við tökum okkur fyrir hendur verði sem allra minnstur. Geta má þess að við erum m.a. með dósa- og flöskusöfnun, margt smátt gerir eitt stórt. Og tökum við framlögum í hann með gleði.

Við fengum Miðlun til að safna auglýsingum og styrktarlínum í leikskrá og á vef félagsins eins og undanfarin ár. Okkur til furðu gekk það ekki síður en í fyrra. Sem segir okkur það að við eigum trygga bakhjarla víða að.

Stjórn hélt á starfstímabilinu 26 reglulega stjórnarfundi auk þess sem mikil samskipti fóru fram gegnum tölvupóst.

Tveir félagsfundir voru haldnir 11. sept. 2008 og 26. mars 2009

Opinn stjórnarfundur var 21. ágúst þar sem Þröstur kynnti fyrihugað námskeið og hugmyndir um Sjeikspírs Karnivalið.

Við héldum Kaffileikhús 21. maí sl. þar sem sýnd voru 3 stuttverk: Bara Tjilla. eftir Jónínu Leósdóttur, Miðvikudagur í helvíti, eftir Ármann Guðmundsson, og Tvíleikur fyrir höfund og leikara, eftir Benóný Ægisson. Hjólastólasveitin var með uppistandið Kókósbollu hó ó pónó, og fjórar hljómsveitir spiluðu nokkur lög. Það voru Tobias og Daníel, Lister, Nafla-Jón og Dúó Gísla blikk. Fullt var út úr dyrum og fékk tiltækið góðar umsagnir gesta. Því var ákveðið að hafa aukasýningu 1. júní og vonumst við til að sjá ykkur sem flest þar.

Eitt mál stendur út af borðinu, sem við gátum ekki klárað en það er Rafmagnsvandamálið mikla. Sem er rafmagnstruflun hér í húsinu sem truflar tónmöskvakerfið og ekki hefur fundist lausn á.

Starfið framundan er bjart. Halafélagar ætla að endurgjalda húsaleiguna með því að hjálpa til við að sýna húsið á 50 ára afmæli Sjálfsbjargar lsf. Og vera með ýmislegt hullumhæ og er óskað eftir sjálfboðaliðum til að aðstoða þann dag. Við stefnum á að hafa hefðbundinn Krikadag í sumar og Ágústa er að vinna að gerð nýrrar leikgerðar um Svartfugl, eftir Gunnar Gunnarsson. Stefnt er að því að hafa æfingatímabilið svipað og tvo síðustu ár.

Stjórn vill þakka félagsmönnum fyrir þátttökuna í þessum verkefnum öllum og hlakkar til að fá nýja meðlimi í stjórn og nýja strauma.