Aðalfundur 24. maí 2008

Aðalfundur Halaleikhópsins

laugardaginn 24. maí 2008

Fundargerð

Ásdís Úlfarsdóttir, formaður Halaleikhópsins bauð fundarmenn velkomna og setti fundinn.

 

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

Uppástunga kom um Grétar Pétur Geirsson sem fundarstjóra. Samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri þakkaði traustið og las upp dagskrá fundarins.

Uppástunga kom um Önnu G. Sigurðardóttur sem fundarritara. Samþykkt samhljóða.

 

2. Inntaka nýrra félaga.

Ása Hildur Guðjónsdóttir las upp eftirtalda einstaklinga sem hafa óskað eftir inngöngu í félagið;

Daníel Halldór Guðmundsson, Elísa Ósk Halldórsdóttir, Eyrún Ósk Sigurjónsdóttir, Guðmundur G. Hreiðarsson, Gunnar Freyr Árnason, Gunnar Gunnarsson, Hafsteinn Þ. Hafsteinsson, Höskuldur Höskuldsson, Kristín M. Bjarnadóttir, Pétur O. Gíslason, Silja Kjartansdóttir, Telma Kjartansdóttir og Tobías Hausner. Samþykkt samhljóða.

Tveir hafa sagt sig úr félaginu og eru það Vilborg Þorvaldsdóttir og Gunnar Ó. Kristleifsson. Sex hafa dottið úr félaginu þar sem þeir hafa ekki greitt félagsgjöld.

 

3. Skýrsla stjórnar.

Ásdís Úlfarsdóttir kynnti.

„Skýrsla stjórnar leikárið 2007-8

Alls voru haldnir 32 stjórnarfundir á liðnu starfsári. Sú regla frá árinu á undan að hafa fasta stjórnarfundi annan hvern miðvikudag kl. 18.15 var höfð áfram.

Síðastliðið sumar var haldinn einn Haladagur í „Krikanum”.

Sú stjórn sem kosin var á aðalfundinum 2007 er að miklu leyti skipuð sama fólki og hafði verið skipað í stjórn á aðalfundi árið áður. Sú stjórn hafði þegar hafist handa við undirbúning 15 ára afmælis Halaleikhópsins 27.september 2007 og haldið var áfram þar sem frá var horfið með þann undirbúning strax að loknum stjórnarskiptum.

Sent var út bréf til Halafélaga og óskað eftir hugmyndum um hvað gera ætti í tilefni af afmælinu. Nokkrar tillögur bárust, s.s. að halda uppistandsnámskeið.

Fjórir félagar höfðu gefið kost á sér í afmælisnefnd fyrir síðasta aðalfund og fundaði nefndin reglulega með stjórninni. Í afmælisnefnd voru: Gunnlaugur Ingimarsson, Margrét Edda Stefánsdóttir, Kristinn Guðmundsson og Jón Þór Ólafsson. Ekki gafst tími til að framkvæma allar hugmyndir sem bárust en þær bíða betri tíma.

Leitað var til allra leikstjóra sem unnið höfðu með Halaleikhópnum frá upphafi, og óskað eftir samstarfi vegna 15 ára afmælis hópsins. Þeir hefðu frjálsar hendur með hvaða hætti þeir kæmu að afmælinu, hvort sem það væri að leikstýra stuttverki eða eitthvað annað. Þeir sem sáu sér fært að vinna með okkur á þessum tímapunkti voru: Ármann Guðmundsson, sem gaf okkur stuttverk til uppsetningar, Edda V. Guðmundsdóttir sem leikstýrði, Guðjón Sigvaldason var stjórn innan handar til ráðgjafar vegna afmælisins og Vilhjálmur Hjálmarsson en hann var bæði kynnir á afmælishátíðinni og sá um hönnun á ljósasjóvi í tilefni af kaupum leikhópsins á nýju tölvuljósaborði og viðbót við ljósabúnaðinn sem fyrir var. Nýja ljósaborðið var afmælisgjöf leikhópsins til sjálfs sín og var það vígt á afmælishátíðinni. Með því rættist gamall draumur því ljósaborðið er tölvustýrt, þannig að nú er tæknihlið leikhússins okkar líka aðgengileg fötluðum. Nú ættu því allir félagsmenn að geta unnið mun stærri part af tæknivinnunni sjálfir. Þess má geta að Vilhjálmur Hjálmarsson og Ása Hildur Guðjónsdóttir fóru á fund Þórólfs Árnasonar og hann gekk í lið með okkur til að afla fjármagns til þessara kaupa.

Stjórn leist vel á þá hugmynd að halda uppistandsnámskeið og hafði samband við nokkra aðila sem mögulega gætu haft umsjón með námskeiðinu. Allir bentu þeir á Ágústu Skúladóttur og var hún fengin til verksins.

Uppistandsnámskeiðið hófst þann 1.september 2007 og hafði það yfirskriftina „Sólóstund leikarans“. Þrettán félagar skráðu sig á námskeiðið. Út úr uppistandsnámskeiðinu kom

Hjólastólasveitin sem tók þátt í Margt smátt 2007 og hefur víða verið fengin til að skemmta síðastliðið leikár.

Haldið var uppá 15 ára afmæli Halaleikhópsins með glæsibrag, laugardaginn 29.september 2007. Gestum var boðið uppá skemmtidagskrá í Halaleikhúsinu

og að henni lokinni var farið upp í félagsheimili Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu og þar var boðið upp á tertur og fínerí. Á afmælishátíðinni voru þrír frumkvöðlar að stofnun félagsins gerðir að heiðursfélögum þess,en þeir eru: Guðmundur Magnússon og Ómar Bragi Walderhaug og heiðruð var minning Sigurðar heitins Björnssonar.

Kaffileikhús var haldið 12. og 14.október sl. Þar var endurtekin skemmtidagskráin frá afmælishátíðinni. Sýnt var stuttverkið „Hvað drap asnann?“ eftir Ármann Guðmundsson, flestir þátttakenda uppistandsnámskeiðsins fóru með gamanmál og Hanna Margrét Kristleifsdóttir las ljóðið „Breikkið hliðið“ eftir Tor Ottar Kvam í þýðingu Steinunnar Harðardóttur.

Ákveðið var að halda nokkur „bíókvöld“ á tímabilinu frá afmæli leikhópsins til upphafs æfinga á „Gaukshreiðrinu“. Sýndar voru upptökur af nokkrum af eldri uppfærslum Halaleikhópsins.

Í október vann stjórn félagsins skipulagsskrá upp úr skipulagsskrám annarra leikfélaga , sem henni áskotnaðist á námskeiði í stjórnun leikfélaga á vegum BÍL. Komandi stjórnum er í sjálfsvald sett, hvort þær vinni eftir þessu plaggi. Skipulagsskrána má nálgast á heimasíðu félagsins. Stjórnin hafði þessa skipulagsskrá til hliðsjónar við uppsetninguna á „Gaukshreiðrinu“.

Húsreglur fyrir Halaleikhópinn voru unnar í nóvember sl. og hanga þær uppi á vegg í eldhúsinu í Halanum. Húsreglurnar voru unnar með hliðsjón af húsreglum Sjálfsbjargarhússins og aðlagaðar að okkar starfsemi.

Í tilefni af Evrópuári jafnra tækifæra 2007 veitti Félags-og tryggingamálaráðuneytið hópnum styrk að upphæð 200 þúsund krónur. Þessi styrkur var veittur vegna Gaukshreiðursins. Við vorum þar í góðum félagsskap,því aðrir sem fengu styrk voru m.a. Mannréttindaskrifstofa Íslands og Kvennaathvarfið.

Eitt fréttabréf, Hala-Fréttir, var gefið út í vetur.

Ákveðið var að fara aftur í samstarf við Miðlun (áður PSN-samskipti) um fjáröflun fyrir Halaleikhópinn, þar sem góð reynsla var af því frá árunum áður.

Í vetur var keyptur og tekinn í notkun tónmöskvi í húsnæði Halaleikhópsins.

Stjórn leikársins 2006-7 hafði þegar gert munnlegt samkomulag við Guðjón Sigvaldason um leikstjórn á „Gaukshreiðrinu”, eftir Dale Wasserman, leikárið 2007-8. Leikstjórasamningur við hann var síðan undirritaður þann 5.september 2007, og haldinn þankaroksfundur vegna fyrirhugaðrar uppsetningar sama kvöld, þar sem 20 manns mættu og létu hugann reika.

Æfingatímabilið hófst í byrjun nóvember, en tekið var frí í desember. Aftur var hafist handa í byrjun janúar og frumsýning var þann 9.febrúar sl. Sýningar voru 11 talsins og

komu 408 sýningargestir á sýninguna. Þar af voru 137 frí- og boðsmiðar.

Við, ásamt öðrum áhugaleikfélögum, fundum fyrir áhugaleysi fjölmiðla og erfitt reyndist að fá birta umfjöllun um sýninguna.

Í vetur hefur gengið vel að fá styrki úr hinum ýmsu sjóðum. Við minnum á að gjafabréf Halaleikhópsins eru til sölu hjá félaginu.

Við tókum þátt í keppninni um Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins , sem haldin er á vegum Þjóðleikhússins. Skemmst er frá því að segja að við unnum val Þjóðleikhússins um Athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2007 – 2008. Tilkynnt var um það á aðalfundi BÍL í Skagafirði 4. maí sl.. Þetta hefur það í för með sér að okkur er boðið að sýna í Þjóðleikhúsinu 4. júní nk. á Stóra sviðinu. Stjórn Halaleikhópsins hvetur félaga eindregið til að mæta.

Aðalfundur BÍL árið 2008 var haldinn í Skagafirði fyrstu helgina í maí og stjórn ákvað að senda 2 fulltrúa á fundinn.

Þess má geta að nú mun í fyrsta skipti félagi úr Halaleikhópnum , fara í Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga og ákveðið var á stjórnarfundi að styrkja hann til fararinnar.

Að lokum vil ég, fyrir hönd stjórnar,þakka ykkur öllum fyrir samstarfið í vetur “.

Orðið gefið laust, enginn kvaddi sér hljóðs. Samþykkt samhljóða.

 

4. Afgreiddir endurskoðaðir reikningar félagsins.

Kristín R. Magnúsdóttir. (sjá framlögð fundargögn)

Fundarstjóri sagði ánægjulegt að styrkjum hefði fjölgað milli ára um tvær milljónir.

Nokkur umræða var um reikningana en fundarmenn voru mjög ánægðir með reikningana og uppsetningu þeirra.

Reikningar samþykktir samhljóða

 

 

5. Afgreiðsla tillagna sem borist hafa fundinum, svo sem lagabreytingar.

Ása Hildur Guðjónsdóttir kynnti.

„5. grein laganna í núverandi lögum.

5. grein.

Aðalfundur fer með æðsta vald í félaginu. Hann skal haldinn í maí ár hvert.
Dagskrá aðalfundar:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Inntaka nýrra félaga.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Afgreiddir endurskoðaðir reikningar félagsins.
5. Afgreiðsla tillagna sem borist hafa fundinum, svo sem lagabreytingar.
6. Starfsemi næsta leikárs.
7. Kosning stjórnar, varastjórnar, tveir skoðunarmenn reikninga.
8. Önnur mál

Aðalfund skal boða bréflega með minnst viku fyrirvara. Þó skal vera heimilt að boða fundinn með tölvupósti, en æskja um leið staðfestingar að hann hafi verð móttekinn og skal þá sami fyrirvari gilda. Aðalfundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað” .

Tillaga var um að 3. liður dagskrár aðalfundar breytist úr „skýrslu formanns“ í „skýrsla stjórnar“. “

Samþykkt samhljóða.

Lögin voru þessu næst borin upp í heild sinni

Lögin samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.

 

6. Starfsemi næsta leikárs.

María Jónsdóttir kynnti.

Ekki hefur gefist tími til að ræða hugmyndir að verkefni næsta árs og var orðið gefið laust um tillögur.

Fundarstjóri spurði hvort ekki væri eðlilegast að vísa þessu til nýrrar stjórnar.

Magnús Addi Ólafsson kom með tillögu um kynningu og námskeið um lýsingu og hljóðstjórnun hjá Halaleikhópnum.

Rætt var m.a. um óánægju á síðasta aðalfundi þar sem þá hafði verið ákveðið fyrirfram hvaða sýningu ætti að setja upp síðastliðið haust en þrátt fyrir þá gagnrýni hafi sýningin vakið mikla athygli og m.a. fengið verðlaun sem Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins.

Tillaga kom fram um að vísa þessu máli til stjórnar með þeim fororðum að hugmyndir sem ræddar voru á aðalfundi, s.s. að óska eftir leikstjóra og að sá aðili velji leikrit til uppsetningar næsta vetur ásamt tillögu um að haldið verði námskeið um lýsingu og hljóðstjórnun. Samþykkt samhljóða að vísa málinu til stjórnar.

 

7. Kosning stjórnar, varastjórnar, tveir skoðunarmenn reikninga.

Þeir einu mega kjósa sem eru skuldlausir og hafa fengið afhenta græna miða.

Enginn hafði gefið kost á sér sem formaður. Ása Hildur sem var í framboði til ritara ákvað að gefa kost á sér sem formaður ef aðrar tillögur kæmu ekki fram.

Kosning formanns til tveggja ára.

Ása Hildur Guðjónsdóttir gaf kost á sér til formanns. Samþykkt með lófaklappi.

Kosning varaformanns til eins árs.

Höskuldur Þ. Höskuldsson gaf kost á sér til varaformann í eitt ár þar sem María Jónsdóttir sagði af sér. Samþykkt með lófaklappi.

Ritari til tveggja ára.

Þar sem Ása Hildur færðist upp í embætti formanns var Kristín Bjarnadóttir ein í framboði sem ritari. Samþykkt með lófaklappi.

Meðstjórnandi til tveggja ára.

Í framboði var Stefanía B. Björnsdóttir. Samþykkt með lófaklappi.

Varamaður til tveggja ára

Guðríður Ólafsdóttir gaf áfram kost á sér. Samþykkt með lófaklappi.

Tveir varamenn til eins árs.

Þar sem Stefanía færðist upp í embætti meðstjórnanda gaf Einar Andrésson kost á sér. Samþykkt með lófaklappi.

Þar sem Kristinn Guðjónsson gaf ekki kost á sér áfram sem varamaður gaf Magnús Addi Ólafsson kost á sér sem varamaður til eins árs. Samþykkt með lófaklappi.

Árgjald

Tillaga stjórnar var um að árgjald hækki í kr. 1800. Ef greitt er fyrir 1. ágúst n.k. fæst 300 kr. afsláttur og verður árgjaldið því kr. 1500. Eftir 1. ágúst verða sendir út greiðsluseðlar til þeirra sem ekki hafa þá greitt árgjaldið.

Samþykkt samhljóða.

 

8. Önnur mál

Stefanía B. Björnsdóttir gerði grein fyrir aðalfundi BÍL 2008.

Aðalfundur BÍL 2. – 4. maí 2008

Halaleikhópurinn sendi tvo fulltrúa á aðalfundinn Ásu Hildi Guðjónsdóttur og Stefaníu Björk Björnsdóttur. Fundurinn var haldinn í félagsheimilinu Árgarði í Skagafirði og gist var og snætt að Bakkaflöt í Skagafirði.

19 félög sendu 36 fulltrúa sem sátu þingið auk stjórnar BÍL og starfsmanna.

Fyrirhuguð einþáttungahátíð sem halda átti í tengslum við aðalfundinn var aflýst vegna ónægrar þátttöku. En á föstudagskvöldinu fórum við á Sauðárkrók og sáum „Viltu finna milljón?“ Hjá Leikfélagi Sauðárkróks í Bifröst. Var það hin mesta skemmtun.

Eiginleg fundarstörf hófust svo kl. 9.00 á laugardagsmorgun með hefðbundnum aðalfundarstörfum, og stóð linnulítið til kl. 17.00. Helstu málin sem rætt var um voru td.: Skortur á gagnrýni fyrir áhugaleikfélög og svo sem engar patentlausnir uppi í því máli. Þó var því beint til BÍL að halda námskeið í því að skrifa gagnrýni svo hægt væri að fá fleiri til að skrifa og birta á vef BÍL.

Varðandi Leiklistarskólann þá er mikil gróska í honum en húsnæðismál hans vandamál. Enn er verið að skoða hvort Hallormsstaður verði framtíðarkostur, en ekki náðist að ganga frá því fyrir þetta skólaár.

Handritasafnið er enn í vinnslu og aðalfundurinn samþykkti að kaupa nýja ljósritunarvél og skanna fyrir það verkefni, sem og tölvu og afritunarbúnað. Talsvert vantar af upplýsingum um leikritin sem eru inná vefnum. Og fólk kvatt til að senda inn smá lýsingu ef það þekkti leikritin. Lestrarhestafélag var sett á stofn, það er hópur fólks sem tekur að sér að lesa yfir handrit og gera stuttan útdrátt og lýsingu til að setja á vefinn til að auðvelda leit að leikritum.

Ekkert er að gerast í málefnum búningasafnsins. Þjóðleikhúsið segist tilbúið til að lána út búninga ef það hefði mannskap í það sem það hefur ekki.

Saga BÍL er að verða tilbúin, búið er að hanna kápuna. Verið er að safna nöfnum í gradule lista gegn skuldbindingu til að kaupa bókina. Bókin mun kosta 5600 kr í smásölu og 4900 kr. í forsölu fyrir þá sem eru á listanum.

Talsvert var rætt um Margt smátt og mikill áhugi fyrir að halda hana aftur í haust sem var svo samþykkt. Halaleikhópnum voru færðar þakkir fyrir gott partý eftir Margt smátt.

Breyting var gerð á reglum um úthlutun styrkja þar sem tímalengd á verki í fullri lengd var stytt úr 90 mín í 80 mín. Árgjaldið var samþykkt óbreytt. Minnt var á NEATA hátíðina á Akureyri 2010, leikfélög þurfa að hafa hana í huga við val á verki næsta leikárs ef þau hafa áhuga á að sækja um.

Tillaga stjórnar að starfsáætlun var samþykkt sem er í meginatriðum: Rekstur þjónustumiðstöðvarinnar, Leiklistarskólans, vefsins og annarra fastra liða. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið um Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins. Sérverkefni starfsársins verða að halda áfram undirbúningi fyrir NEATA 2010 og hefja fjármögnun hennar, ma. með umsókn í menningarsjóð ESB. Hefja skönnun á handritasafninu. Margt smátt haust 2008, halda haustfund 2008, þar sem verða tengd við námskeið og hugsanlega endurskoðaðar úthlutunarreglurnar.

Á laugardagskvöldinu var svo hátíðarkvöldverður þar sem Leikfélag Selfoss kom með einþáttung, og Leikfélag Sauðarkróks var með hin ýmsu skemmtiatriði ma. kom Geirmundur Valtýsson og spilaði og söng fyrir okkur. Herdís Þorvaldsdóttir kom og flutti okkur erindi um hvernig hafi verið að starfa í áhugaleikfélögum fyrir 50 árum. Hápunktur kvöldsins var svo þegar Tinna Gunnlaugsdóttir kynnti val Þjóðleikhússins á Athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2007 – 2008. Í ár hrepptum við titilinn fyrir Gaukshreiðrið og fengum að auki viðurkenningu fyrir gott og öflugt starf undanfarin ár. Fögnuðurinn var gríðarlegur í okkar hópi. Svo skemmtilega vildi til að Gunnar Gunnarsson var staddur á þinginu líka á vegum leikfélagsins Peðsins og gat tekið við viðurkenningunni með okkur.

Á sunnudagsmorgninum kl. 9.00 var svo fundi haldið áfram og samþykktar þær tillögur sem kynntar voru daginn áður, farið var í hópastarf og sköpuðust líflegar umræður.

Stjórnarkjör:

Ingólfur Þórsson var kosinn varaformaður er frá Freyvangsleikhúsinu

Guðfinna Gunnarsdóttir Leikfélagi Selfoss og Hörður Sigurðarson Leikfélagi Kópavogs voru kosin sem meðstjórnendur.

Í varastjórn voru kosin: Sigríður Lára Sigurjónsdóttir frá Hugleik, Halla Rún Tryggvadóttir frá Leikfélagi Húsavíkur og Elva Dögg Gunnarsdóttir frá Leikfélagi Hafnarfjarðar.

Fundi lauk undir hádegi. Þá var snæddur hádegisverður áður en lagt var í hann.

Aðgengi var ekki í lagi fyrir hjólastóla á báðum stöðunum en þó tiltölulega litlir agnúar nema að það var ekki neitt aðgengilegt klósett sjáanlegt á staðnum. Við fórum í pontu í lok fundar og mótmæltum þessu og báðum um að betur verði hugað að þessu í framtíðinni.

Nánari upplýsingar um fundinn og ályktanir og kjör verður hægt að nálgast á vef BÍL fljótlega.

Ása Hildur Guðjónsdóttir

Stefanía Björk Björnsdóttir “.

Ása Hildur minntist á Tabula gratulatoria sem er þátttökulisti yfir félög innan BÍL en gefin verður út bók um 50 ára sögu BÍL þar sem leikfélögum er gefinn kostur á að nafn sitt komi fram.

Samþykkt var að Halaleikhópurinn léti nafn sitt í bókina.

Ása Hildur þakkaði traustið að vera valin formaður og þakkaði hún þeim sem gengu úr stjórn fyrir vel unnin störf.

Kristinn Guðjónsson þakkaði samstarfið á liðnu ár og óskaði nýrri stjórn til hamingju.

Kristín R. Magnúsdóttir þakkaði fyrrverandi stjórn fyrir góð störf og óskaði nýrri stjórn til hamingju.

Ásdís Úlfarsdóttir óskaði nýrri stjórn til hamingju með kjörið og þakkaði fyrri stjórn samstarfið.

Ásdís þakkaði fyrir góðan fund og þakkaði fundarstjóra og fundarritara fyrir þeirra störf.

Fundarritari; Anna Guðrún Sigurðardóttir

Samþykkt á stjórnarfundi 9. júní 2008.